143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

skipasmíðar og skipaiðnaður.

[11:23]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir þessa umræðu. Hún er mikilsverð. Við ræðum hér mikilvægan hlut í íslensku þjóðlífi sem við viljum endurvekja að fullu, innlendar skipasmíðar. Um þessar mundir eru um það bil 65 nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi sem á einn eða annan hátt koma að heildarlausnum á vinnslukerfum fyrir erlendar skipasmíðastöðvar. Þar fara fremst Skaginn, Marel og Slippurinn á Akureyri og eins eru þessi fyrirtæki í samvinnu við Íslenska sjávarklasann og hafa þau verið að undirbúa að hanna hið græna skip.

Við þurfum að skapa íslenskum fyrirtækjum sömu umgjörð og aðstæður og eru í öðrum samkeppnislöndum okkar um skipasmíðar og færa þær inn til landsins. Ég held að það sé afar mikilvægt. Við höfum fundið það á ferðum okkar, atvinnuveganefnd, þegar við höfum heimsótt þessi fyrirtæki að í raun er allt til staðar, það er kunnáttan, það er þekkingin, það er aflið og aðstaðan, en það þarf sambærilega umgjörð og ívilnanir og fylgja í öðrum löndum.

Við erum að tala um að íslenskt hugvit sé flutt út fyrir milljarða á ári. Áætlað er að árið 2023 muni þessi þekkingarfyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi flytja út hugvit og vörur fyrir um það bil 100 milljarða kr. Þarna er verið að tala um stórkostlega auðlind sem felst í íslenska hugvitinu og það er okkar að skapa því þá umgjörð að á Íslandi geti á næstu árum hafist endurnýjun fiskiskipaflotans með íslensku hugviti, með íslenskri þekkingu á íslensku landi með íslensku starfsfólki.