143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

skipasmíðar og skipaiðnaður.

[11:25]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að vekja athygli á því, af því að menn voru einmitt að ræða það hér að okkur vantaði menntun í sambandi við ýmislegt í skipasmíðaiðnaðinum, að Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra er farinn að bjóða upp á nám í smíði á plastbátum. Ég held að það sé samstaða um það hér, alla vega meðal þeirra sem hér hafa talað, að við eigum auðvitað að vera með sem allra mest af verkefnum hér heima og jafnframt þjónustu við sjávarútveginn og nýta okkur það hversu veigamikill þáttur þetta er í íslensku atvinnulífi og nýta þekkingu okkar til útflutnings.

Þá komum við aftur að því sem ég nefndi í fyrri ræðu um samkeppnishæfnina. Þar hefur nýsköpunarumhverfið að mörgu leyti verið mjög gott, því hefur verið hælt af þeim sem þar vinna. Þar var tekin upp endurgreiðsla á nýsköpunar- og þróunarkostnaði sem því miður var lækkuð úr 20% í 15%, en mikilvægt er að halda þeirri endurgreiðslu.

Það hefur verið gagnrýnt að ekki séu styrkir til þeirra sem framleiða hlutina, varðandi umhverfið hjá þeim aðilum, aðstoð við markaðssetningu og ýmislegt hvað greinina varðar, að þar vanti töluvert upp á. Þar er auðvitað gríðarlega mikilvægt verkefni sem varðar samkeppni, sem er þessi klasamyndun þar sem menn reyna að draga saman fyrirtæki sem hafa sameiginlega hagsmuni, þeir halda áfram samkeppni á markaði en beita kröftum sínum sameiginlega til að markaðssetja sig út á við gagnvart nýsköpun og sölu í greinunum.

Ég held að verkefni okkar í framhaldi af þessari umræðu, og það hefði raunar mátt gera áður, að fara vel yfir það umhverfi sem íslensku fyrirtækjunum er skapað í þessum greinum til þess að möguleiki sé fyrir þau að stunda nýsköpun og öfluga framleiðslu.

Varðandi sáttina í sjávarútvegi hef ég sagt það hér alveg frá því að ég kom á þing að það er óþolandi fyrir atvinnugrein eins og sjávarútveginn að búa ekki við öruggt umhverfi. Enn og aftur lýsi ég ábyrgðinni á alla aðila. Sátt við hvern? Auðvitað við greinina en líka við fólkið í landinu. Við verðum að koma á því umhverfi að hér ríki sátt.

Það er aftur á móti fyrirsláttur að það eitt hafi valdið því að hér hafi engar (Forseti hringir.) fjárfestingar verið gerðar, það höfum við séð af fjárfestingunum fyrir hrun (Forseti hringir.) þegar umhverfið var okkur býsna (Forseti hringir.) öruggt.