143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

skipasmíðar og skipaiðnaður.

[11:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Því miður hafa stærstu skipakaup Íslendinga á síðustu árum verið án aðkomu íslenskra tæknifyrirtækja, en það eru engar haldbærar skýringar á því hvers vegna íslenski tæknigeirinn ætti ekki að verða fyrir valinu. Íslensk fyrirtæki bjóða samkeppnishæfar grænar lausnir sem reynst hafa vel um allan heim og þau bjóða lausnir sem viðhalda og nýta betur afurðir um borð í þeim efnum og svo mætti áfram telja.

Það verður ávallt erfitt fyrir Íslendinga að keppa við stærri þjóðir, við vitum það. Því er mikið í húfi fyrir Íslendinga að byggja upp skipasmíðaiðnað hérlendis. Þar mundum við ugglaust fara afar svipaða leið og Norðmenn hafa gert, að flytja inn skipaskrokka frá löndum sem eru mun samkeppnishæfari í málmsmíði og hlaða síðan skipin íslenskum búnaði. Ef við náum að festa okkur í sessi sem öflug þjóð á þessu sviði kunna að skapast fleiri tækifæri til að sinna mun fleiri skipum sem sigla við Íslandsstrendur. Ég tel það vera mikilvægt að íslensk útgerðarfyrirtæki gefi íslenskum tæknifyrirtækjum færi á að bjóða í lausnir sínar. Slíkt mundi efla allan íslenska sjávarklasann, sem unnið hefur mjög gott og þarft verk, og við þurfum að stilla saman strengi. Þannig mundi þetta auka skilning á mikilvægi sjávarútvegs sem er að sjálfsögðu undirstöðugrein sjávarklasans. Þá verða íslensk tæknifyrirtæki að auka samstarf sín á milli með heildstæðum lausnum. Þau eru byrjuð á því.

Að lokum þarf ríkisvaldið að tryggja að íslensk tæknifyrirtæki sitji eins og kostur er við sama borð og tæknifyrirtæki frá öðrum löndum í sambandi við skatta og gjöld og aðrar ívilnanir í skipasmíði.