143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

skipasmíðar og skipaiðnaður.

[11:34]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þann jákvæða tón sem í henni er. Það þarf enginn að efast um þjóðhagslega hagkvæmni þess ef við getum fært meira af þessari vinnu, þjónustu við íslenskan skipasmíðaiðnað, bæði smíði og frágang skipa og önnur þjónustuverkefni til landsins. Í því mun felast gríðarlegur gjaldeyrissparnaður fyrir þjóðarbúið í heild.

Fagleg þekking er til staðar og sá grunnur sem við þurfum að byggja á. Hann er með því besta sem þekkist í heiminum, það sést best á því að þjónustuiðnaðurinn við íslenskan sjávarútveg sinnir verkefnum um allan heim. Það er líka ánægjulegt að sjá að íslensk fyrirtæki, útgerðarfyrirtæki hafa í auknum mæli verið að horfa til Íslands. Það kom fram hjá hv. þingmanni áðan hversu öflug starfsemi Slippstöðvarinnar á Akureyri er, hún velti um 2 milljörðum á ári og þar væri mjög mikið um að erlend verkefni væru unnin þar eða verkefni fyrir erlenda aðila. Fram kom í fréttum núna í síðustu viku að Samherji er að láta breyta þar einu af sínum stóru skipum, það er verkefni sennilega upp á einn milljarð. Það fannst mér vera ánægjuleg og góð frétt sem fór lítið fyrir í fjölmiðlum en ég fullyrði að íslenskar útgerðir horfa meira til Íslands og íslenskra fyrirtækja varðandi þessi verkefni.

Aldur flotans er allt of hár, eins og ég kom inn á hér áðan. Við getum borið hann saman við bílaflotann okkar þó að auðvitað sé þetta ekkert alveg sambærilegt og mikið viðhald hefur farið fram. En það sjá allir hvað það mundi kosta okkur að viðhalda bílaflotanum með sama hætti ef þetta gengur ekki upp. Ef við ætlum að halda því forustuhlutverki sem við höfum í sjávarútvegsmálum almennt meðal samanburðarþjóða okkar þá verðum við að fara í auknar fjárfestingar.

Þá kem ég aftur að því samstarfi sem nauðsynlegt er í greininni til að koma þessu á næsta stig. Það er til dæmis ekki hægt að mála skip innan dyra á Íslandi. Við þurfum að byggja og standa að uppbyggingu öflugrar þjónustumiðstöðvar fyrir íslenska flotann sem færa mun aukin verkefni á þessum vettvangi hingað heim.