143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:47]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég deili þessum áhyggjum með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur. Að mörgu leyti hefði verið eðlilegt að samhliða hefði verið hægt að sjá reglugerðir eða hvernig menn ætluðu að forgangsraða inn á svæðið. Það er rétt, sem kemur fram, að hægt er að skoða þetta út frá íbúafjölda, fjölda þeirra sem þar eru, og það er líka hægt að skoða þetta út frá landfræðilegri legu einstakra embætta. Við getum ímyndað okkur staði sem eru miðsvæðis á gríðarlega stórum landsvæðum. Lögreglan þarf að fara víða um og það skiptir máli að lögreglustjóraembættið sé þar og að því sé stýrt miðlægt á svæðinu. Svo koma byggðasjónarmiðin, kröfur um að menn sinni því að hjálpa þeim byggðum sem standa verr.

Þetta verður ekkert auðvelt. Ástæðan fyrir því að það hefur verið auðvelt að ná sátt í þinginu, að okkur hefur tekist að ná sátt í þessum tveimur málum, er sú að við skiljum í sjálfu sér stærsta ágreiningsefnið í héraði eftir. Það er gríðarlega mikilvægt að þingið fái að fylgjast með hvernig þetta verður gert og kröfurnar sem við verðum að gera eru að uppi á borðinu séu samdar forsendur, meginreglur og meginlínur, og síðan verði menn að máta niðurstöður inn í það og það sé gegnsætt hvernig ákvörðun er tekin, þ.e. að það sé uppi á borðinu hvernig þetta er gert. Sporin hræða í þessu samhengi. Við sjáum mörg dæmi um kröfugerð einstakra þingmanna eða ráðherra að tryggja að embætti komist á ákveðna staði. Menn eru svo oft að berja sér á brjóst fyrir að hafa ráðið því, ekkert endilega út frá faglegum forsendum. (Forseti hringir.) Ég er ekki mjög hlynntur slíkri stjórnsýslu.