143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og ætla að halda aðeins áfram á þessum nótum. Ég er sammála því sem kemur fram í svari hv. þingmanns að í sjálfu sér er einfalt að benda á tiltekna þætti eins og íbúafjölda, vegalengdir, almenn byggðasjónarmið o.s.frv. En það er kannski snúnara þegar þessi sjónarmið vegast á og vísa jafnvel hvert í sína áttina.

Þá held ég að við séum komin að öðru sem hefur líka verið dálítið ósnertanlegt í umræðunni hér í þingsal, það er einfaldlega staða sveitarfélaganna og möguleikar þeirra, ekki bara til samstarfs heldur til sameininga. Mér hefur stundum fundist við vera að fjalla um mjög afdrifarík byggðamál í aðskildum þingmálum. Hér erum við að tala um þetta varðandi sýslumannsembættin og lögreglustjóraembættin, í einhverri allt annarri löggjöf eða umræðu tölum við um heilbrigðisþjónustu, enn önnur umræða snýst um byggðaáætlun og svo tölum við um framhaldsskólana. Við ræðum þetta allt niðurhólfað þegar hver ákvörðunin sem tekin er varðar miklu um þróun byggðar í landinu.

Þess vegna hefur mér komið það í hug hvort byggðaáætlun, eða þessi stóra miðlæga áætlun, ætti ekki að vera með þeim hætti að við þyrftum að bera ákvarðanir, eins og þær sem við erum að taka hér, að byggðaáætlun á hverjum tíma í samstarfi við sveitarfélögin. Það er mikil tortryggni til staðar, eins og hér hefur komið fram, þar sem menn eru á þeirri skoðun, að sumu leyti vegna þess að þeir eru illa brenndir, að störf hafi tilhneigingu til að færast til Reykjavíkur og að menn hafi tilhneigingu til að meina ekkert með því sem þeir segja þegar þeir tala um að efla þjónustu úti um landið.