143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:56]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurningarnar. Ég vil vekja sérstaka athygli á því og þakka fyrir að hv. þingmaður sem fulltrúi Pírata hefur verið á vaktinni varðandi persónuvernd og þá umgjörð sem er utan um aðgengi að upplýsingum, bæði til að veita aukið aðgengi en líka til þess að vernda persónuverndarsjónarmið og hvað varðar persónuvernd og réttindi einstaklinga til að njóta friðhelgi.

Þess vegna deilum við þeirri skoðun um greiningardeildina og annað að við eigum ekki að opna glugga til þess að búa til möguleika á því að fylgjast með einhverju sem er algjörlega óþarft. Á sama tíma er ég þeirrar skoðunar að með ákveðnum skilaboðum og skilgreiningum sé hægt að beita forvörnum. Dæmi um það er að við erum búin að setja í nánast alla uppeldislöggjöf á Íslandi að það þurfi að sýna sakavottorð þegar ráðnir eru starfsmenn til að vinna með börnum til þess að hindra að við ráðum starfsfólk til dæmis með barnagirnd, einfalt ákvæði og í sjálfu sér á ekki að vera nein hætta, það er ekki verið að skoða umferðarlagabrot eða annað slíkt.

Það er kannski nákvæmlega það sem við erum að tala um í sambandi við löggæsluna og kom það ágætlega fram í umræðum í nefndinni líka. Þess vegna var ég að ræða að það er ákveðið mannréttindauppeldi hjá lögreglunni, þ.e. hagsmuna hverra þarf að gæta. Því er misvel sinnt og almennt ágætlega, en það eru alltaf frávik og þess vegna þurfa að vera ákveðnar heimildir til þess að verjast því að í lögregluliðið ráðist fólk sem hefur verið, við skulum segja ofbeldishneigt, sem hefur ítrekað beitt ofbeldi o.s.frv. En þetta er óskaplega fín lína og líka þegar kemur að því hver á að halda utan um hana og garfa í þessu og upplýsa um þetta.

Ég hef svo sem ekki svarið við þessum vangaveltum en engu að síður held ég að gríðarlega mikilvægt sé að við búum til umgjörð sem er gegnsæ og upplýsandi um hverju verið er að fylgjast með, (Forseti hringir.) hver gerir það, að það sé skráð og þar með hægt að fylgjast með því hvort þetta hefur verið misnotað.