143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég hef aðeins verið að setja mig aftur inn í þetta mál eftir að við funduðum um það í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Við höfum fjallað talsvert um málið og rætt ansi mikið en ég get ekki að því gert að mér sýnist ekki vera samhugur um það meðal lögreglumanna sjálfra. Ég tek eftir því að það er mjög misjafnt. Það er eins og þetta hafi ekki fengið alla þá umræðu sem það hefði þurft frá öllum hagsmunaaðilum. Nú er það auðvitað þannig að sum lög eru þess eðlis að það er ekki hægt að sætta alla því að stundum eru breytingarnar þess eðlis að ekki er hægt að skilja alla eftir fullkomlega sátta við sitt.

Ég velti samt fyrir mér, svona almennt í störfum þingsins, hvort það sé eitthvað við þetta mál sem hv. þingmaður telur að bendi til þess að við hefðum getað gert betur til að leita sátta. Ég sé t.d. í umsögn Landssambands lögreglumanna að þeir leggjast alfarið gegn því að hróflað verði við inntökuskilyrðum eða skipunum lögreglumanna. Mér finnst það svolítið skrýtið, mér finnst það benda til ákveðinnar tortryggni. Ég skynja tortryggni frekar oft þegar við afgreiðum stór mál. Augljóslega er það að verulegu leyti eðlilegt, en ég velti fyrir mér hvort það sé eitthvað við þessa málsmeðferð sem við gætum bætt til þess að draga úr tortryggninni og reynt að vinna þannig að málunum að fleiri færu sáttir frá borði.

Sömuleiðis kom upp þetta með Vestmannaeyjar sem lauk reyndar þannig að tekið var tillit til þeirra athugasemda. Augljóslega er ekki hægt að taka tillit til allra athugasemda.

Ég get ekki að því gert, þrátt fyrir að starfið við þetta frumvarp hafi verið fínt eftir því sem ég fæ best séð, (Forseti hringir.) að mér finnst við fara aðeins of hratt, mér finnst (Forseti hringir.) við einhvern veginn ekki vera búin að ræða allt sem þarf að ræða í þessu sambandi.