143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Almennt held ég að megi segja að maður sé aldrei alveg búinn, maður sé aldrei alveg tilbúinn. Það er eins og þegar maður er að undirbúa jólin, þau eru klukkan sex og þá þarf að kveikja á kertunum. Það er svolítið þannig með þessa vinnu að á einhverjum tímapunkti þarf að segja: Hér eru sjónarmiðin komin fram. Það er til þess sem við buðum okkur fram, að taka stundum afstöðu til eða velja á milli andstæðra sjónarmiða.

Það er gott og blessað að hafa sátt og samlyndi að leiðarljósi, en það er ekki til sú niðurstaða sem sættir öll sjónarmið, ekki í neinu máli, ekki einu einasta máli. Ef við getum ekki klárað það að höggva á hnúta og komast að niðurstöðu þá erum við á vitlausum stað. Ég held að það sé viðfangsefni okkar að taka þá kvöl alvarlega sem fylgir því að þurfa að komast að niðurstöðu, vega og meta sjónarmið, bæði þeirra sem koma með athugasemdir og annarra sem að nefndarstarfinu koma. Auðvitað þarf alltaf að meta það hversu langt málamiðlanir geta gengið. Eins og hv. þingmaður nefnir eru dæmi þess að umsagnir gangi einfaldlega hvor í sína áttina. Þá er ekki hægt að taka afstöðu einhvers staðar þar mitt á milli, þá verður annaðhvort að segja að annað sé rökstutt betur en hitt eða öfugt. Það er svolítið (Forseti hringir.) verkurinn.