143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað þannig að við þurfum að taka afstöðu með eða á móti ýmsum málum. Oft er ekkert hægt að sætta sjónarmið. Ég velti fyrir mér hvort það sem er að angra mig við þetta mál sé kannski bara tímasetningin á því, hvenær við erum að ræða það. Þetta er risastórt mál.

Hér hafa komið fram spurningar sem við höfum ekki rætt í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, að henni ólastaðri. Eins og ég segi skynja ég allt starfið mjög ítarlegt. Við gerum hlutina auðvitað eftir bestu getu. Samt finnst mér einhvern veginn eins og það sé ekki tímabært að taka málið inn núna. Kannski er það bara tímasetningin vegna þess að nú fer þingi að ljúka og ekki mikill tími til þess að ræða mál sem allir vilja ræða. Þetta er auðvitað risastórt mál.

Eins og þessi 30 ára regla sem var nefnd hérna áðan, það eru svona atriði í þessu frumvarpi og í lögunum sem mættu alveg fá meiri umræðu. Gott og vel. Ég tek svari hv. þingmanns góðu og gildu. Það er rétt að við getum ekki leyst öll sjónarmið. Samt get ég ekki að því gert að finna tortryggni. Burt séð frá efnislegri gagnrýni á frumvarpið sjálft þá leggst t.d. Landssamband lögreglumanna gegn því að hróflað sé við þessu yfir höfuð. Það er eins og okkur sé hreinlega ekki treyst til þess að taka neinar ákvarðanir í þessu máli. Mér finnst það mjög skrýtið. Mér finnst það mjög óþægilegt. Ég velti fyrir mér hvort sé samhengi milli þess og að við séum að afgreiða svona stórt mál á lokadögum þingsins í tímaskorti, eins og venjulega. Virðulegur forseti kvartar jafnan yfir þessu, eðlilega, vegna þess að þetta er alltaf vandamál.

Ég verð að segja, eins og er, að þótt ég sé með á nefndarálitinu og hafi ekkert á móti þessu máli þá get ég einhvern veginn ekki losað mig við þá tilfinningu að málið þurfi nánari og ítarlegri umræðu. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hafi einhver ráð til þess að slá á svona tortryggni, (Forseti hringir.) tortryggni sem mér finnst óeðlileg, þrátt fyrir að (Forseti hringir.) við þurfum auðvitað stundum að ákveða (Forseti hringir.) eitthvað í ósætti við suma.