143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Tortryggni er afar eyðandi afl. Ég hef stundum sagt að maður þurfi í öllum samskiptum, sama hvort það er við okkar nánustu eða í starfi í almannaþjónustu, að hugsa sem svo að viðfangsefni okkar sé að byggja upp traust þar sem það er ekki fyrir hendi og efla það þar sem það er fyrir hendi. Það er eiginlega ekkert hægt að gera án þess að það ríki traust. Ef tortryggni er fyrir hendi er maður einhvern veginn alltaf á byrjunarreit.

Mér finnst ekki vera samasemmerki milli þessa og þess að hafa ekki skoðanir. Ég held að það geti styrkt mjög traust og trúverðugleika þegar stjórnvöld, kjörnir fulltrúar, þingmenn, sveitarstjórnarmenn tala skýrt um það hver afstaða þeirra sé til mála og það sé stundum betra og skýrara ef menn segja: Ég er hér vegna þess að ég trúi á þessa eða hina niðurstöðuna. Maður fái atkvæði í ljósi þess frekar en þegar maður segir: Ég er kominn hingað til þess að láta gott af mér leiða. Hvað þýðir það? Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að nákvæmlega sú nálgun á stjórnmál sé til þess fallin að ýta undir tortryggni. Hvað þýðir að vilja láta gott af sér leiða, að gera bara vel? Það er mjög misjafnt hvað fólki finnst vera að láta gott af sér leiða og gera vel.

Mín meginsýn í þessu efni er að það skipti máli að yfirbragðið sé þannig að maður sé ekki með kápuna á báðum öxlum, maður tali ekki tungum tveim heldur tali maður fyrir sjónarmiðum sínum. Ég held að það sé eftirspurn eftir því. Ég held að samfélagið vilji skýrar raddir. (Forseti hringir.) Ég held að fólki vilji skýrar skoðanir og líka skýr skoðanaskipti.