143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:25]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þetta var athyglisverð spurning og auðvitað hefur þessi umræða átt sér stað í talsverðan tíma og er búin að vera í deiglunni. Hvernig mundi ég vilja sjá þetta? Eins og hv. þingmaður sagði áðan vill maður auðvitað láta gott af sér leiða, en ég hef líka vissar hugmyndir um hvernig þetta á að vera. Mér finnst alltaf gott þegar verið er að ræða svona mál að hlusta á fagfólkið og þá sem vinna við hlutina hverju sinni. Mér finnst stundum vanta upp á það í íslensku samfélagi að við hlustum á þá sem vinna á gólfinu. Auðvitað sýnist sitt hverjum um hvernig á að reka þetta. Ég mundi telja að námið ætti að koma meira inn í hið almenna skólakerfi. Auðvitað verður ríkislögreglustjóri að vera ábyrgðarmaður þessa náms í samvinnu við viðkomandi menntastofnanir. Ég hef kannski ekki alveg náð að hugsa málið nógu lengi og vel en eins og fram hefur komið í dag er mjög mikilvægt að við menntum vel hæft starfsfólk og að það fái virkilega góða menntun í lögreglufræðum, ef segja má svo. Ég hef reyndar kynnt mér það eins og ég nefndi áðan varðandi Keili að þar eru menn mjög áfram um að taka alls kyns nám til sín, þar á meðal þetta. Þeir virðast vera fullkomlega í stakk búnir til þess að sinna því.

Við ályktum um það og biðjum ráðherra að skipa starfshóp til þess að koma með endanlegar tillögur. Vonandi fáum við góðar tillögur sem hægt er að vinna í framhaldinu.