143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef að minnsta kosti átt lengri dvöl hér en ég sjálfur kæri mig um að muna. Hins vegar mundi ég vara hv. þingmann við því að nefna mikið skoðanir bæjarstjórans í Vestmannaeyjum á innri málum Reykvíkinga. Sá ágæti maður, sem er mér mjög kær, og ég er í góðu vinfengi við, hefur að mínu viti allt of sterkar og allt of miklar skoðanir á því hvernig hlutirnir eiga að vera í öðrum bæjarfélögum en þeim sem hann er kjörinn til þess að stýra.

Ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir að hafa tekið svona vel í þessa hugmynd og hafa þegar hugsað hana. Ég tel að þetta sé ein af þeim leiðum sem við eigum að skoða til að hagræða og spara. Ég er þeirrar skoðunar að embætti ríkislögreglustjóra sé orðið allt of stórt og allt of viðamikið, búið að taka yfir miklu fleiri verkefni en því var upphaflega ætlað. Það er einu sinni þannig að þegar menn setja á stofn ríkisstofnanir hafa þær mikla tilhneigingu til þess að blása út.

Ég er svo glaður að heyra það hjá hv. þingmanni að ekki þurfi lögreglumenn á vegum úti til að minna hann á að kitla ekki pinnann um of og fara að lögum. Þegar hv. þingmaður nefndi þetta, rifjaðist það hins vegar upp fyrir mér að hér á árum áður varð einn fyrrverandi dómsmálaráðherra frægur á Íslandi fyrir að hafa innleitt pappírslöggur. Það var sennilega til að vekja þessa sömu hughrif og knýja menn til að framfylgja lögunum betur en ella. Því miður varð sú tilraun endaslepp því að þjóðin hló svo hátt og svo lengi að því að pappírslöggurnar hurfu og ekkert hefur til þeirra spurst.