143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:37]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum enn og aftur fyrir spurningarnar og upprifjunina á þessu með pappalögregluna, ég man eftir því, þetta var svolítið fyndið. En við Íslendingar erum reyndar svolítið þannig að við förum ekkert alveg eftir því ef eitthvað slíkt er gert.

Ég get sagt gott dæmi um það. Við settum upp svakalegt skilti á íþróttahúsið í Grindavík um að þar væri bannað að reykja. Skiltið er svo stórt að það sést alveg frá Keflavík. En þar reykja menn helst, þar safnast menn saman og reykja, fyrir neðan skiltið. Við Íslendingar erum nú ekki alltaf að fara eftir því sem okkur er sagt að gera og …(Gripið fram í.) — Já, þú meinar það, við eigum gott fólk í Grindavík, þó kannski mætti álykta annað. Hv. þingmaður nefndi líka bæjarstjórann í Vestmannaeyjum, Elliða Vignisson. Ég hef mikið álit á honum og virði hann mikils. Þó að ég sé ekki alltaf sammála honum er hann mjög skeleggur maður og liggur ekkert á skoðunum sínum. Það er bara mjög gott. Ég virði hann mikils og tek mark á því sem hann segir, án þess að vera alltaf sammála honum.

Ég vona svo sannarlega að þetta sé fyrsta skrefið í átt að því að breyta og efla og styrkja lögregluembætti og sýslumannsembætti í landinu. Auðvitað eigum við að spara og hagræða eins og við getum. Við rekum gríðarlega dýrt bákn og við eigum að vinna í því í sameiningu að minnka það einhvern veginn. Það gerum við sérstaklega með góðum samskiptum og í samráði við fagfólkið og þá sem vinna á gólfinu. Auðvitað er það oft þannig að fólk vill halda í sitt, vill ekkert gefa eftir. Þá kemur til kasta okkar að taka ákvarðanir. Þá er það okkar að hafa hugrekki til að stíga upp á móti því og taka ákvarðanir sem eru til heilla fyrir alla.