143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú eru það kannski fyrst og fremst þessi minnstu byggðarlög sem þurfa virkilega á því að halda að hafa fjölbreyttari flóru en oftast fylgir mikil einhæfni minnstu byggðarlögunum. Störf án staðsetningar miðað við að háhraðatenging sé til staðar — og það er auðvitað okkar verkefni að svo sé — sér hv. þingmaður það fyrir sér að af hálfu hins opinbera eigi að leggja áherslu á að koma slíkum störfum á þá staði þó að ekki búi þar mikill fjöldi af fólki? Þarf kannski ekki að miða við að sinna ýmsum úrvinnsluverkefnum sem felast ekki endilega í þjónustu við almenning augliti til auglitis heldur í gegnum rafrænt umhverfi?

Mér finnst mikilvægt í þessu sambandi að menn skoði þetta mjög vel með þeim gleraugum, hvort þarna sé ekki tækifæri til að dreifa þessum verkefnum svo að þau lendi ekki alltaf á sama stað þegar upp er staðið og að þá sé horft til þess að svæðið sé það fámennt að það geti ekki borið eitthvað slíkt. Við vitum að með fjarvinnslu og háhraðatengingum er þessi möguleiki algjörlega til staðar.

Víða er verið að reyna að hagræða og spara og hefur það bitnað á ýmiss konar þjónustu á landsbyggðinni, hvort sem það er bankastarfsemi, þjónusta útibúa Íslandspósts eða annað því um líkt. Hvað telur þingmaðurinn um embætti ríkislögreglustjóra og hagræðingu og sparnað sem felst í því að það embætti yrði sameinað lögreglustjóraembættinu hér á höfuðborgarsvæðinu? Er ekki kominn tími til að skoða eitthvað slíkt?