143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:55]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir andsvörin. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að í smærri byggðarlögum hér á landi séu fjölbreytt verkefni. Með tilkomu tækninnar á það að vera vel mögulegt. En auðvitað þurfum við að stíga ákveðin skref í því að klára internetvæðingu. Því miður eru svæði hér á landinu sem hafa ekki háhraðatengingar sem við þekkjum í stærri byggðakjörnum og víðast um land, en pottur er brotinn í þeim málum á sumum svæðum.

Við þurfum að horfa til þess að flytja verkefni út á landsbyggðina. Við verðum að hafa landsbyggðargleraugun á nefinu þegar verið er að tala um hvar verkefni af þessu tagi og ýmis önnur eigi að vera staðsett. Í því sem ég hef séð og eftir því sem ég best veit er ódýrara fyrir ríkið að vera með opinber störf úti á landi. Það hefur sýnt sig að launa- og ferðakostnaður og margt fleira er mun ódýrara á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að við verðum að horfa í það hvað er hagkvæmast fyrir okkur varðandi þá hluti.

Hv. þingmaður spyr mig um sameiningu embættis ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans í Reykjavík. Ég tel að þegar við verðum komin með fá mjög stór embætti á landsbyggðinni verðum við að hafa embætti ríkislögreglustjóra sem hafi þetta samræmingarhlutverk og eftirfylgni með embættunum. Það er mín skoðun.