143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:27]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni kærlega fyrir þetta innlegg. Ég er hjartanlega sammála honum um að í internetinu felast gríðarleg tækifæri og þarna eru mörg tækifæri sem er mikilvægt að hægt sé að nota. Lögregluembættin á landsbyggðinni og starfsfólk þeirra getur unnið mörg störf víða, miðlæg störf eins og gerð ýmissa áætlana, almannavarna og viðbragðsáætlana, verkferla og annað slíkt. Það er fullt af rannsóknum sem er hægt að vinna, alls kyns greining á gögnum, rannsóknargögnum, og líka áhættugreining og annað fyrir hvert landsvæði fyrir sig hvað varðar ýmsa brotastarfsemi, og eins líka fjarskiptastjórnun innan lögreglunnar o.fl., fjarnám, endurmenntun og símenntun og allt það sem lögreglan þarf að gera, miðlægur grunnur um verkferla og annað. Þetta kallar allt á öflugar nettengingar og líka sá málaflokkur sem ég nefndi áðan, aukning í netglæpum og öðru slíku. Ég er alveg sammála þingmanninum um að þetta kallar á aukinn þrýsting á að netvæðing landsins gangi hratt fyrir sig.