143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er stórt mál sem við ræðum hér. Það er ýmislegt í því. Sjálfur fagna ég því að eitthvað sé gert sem eykur valddreifingu og að aðgerðir séu hafnar sem leiða það af sér að landsbyggðin geti betur sinnt upp á eigin spýtur þeim verkefnum sem þarf að vinna, ekki bara þar heldur líka ef hægt er að vinna að verkefnum sem ellegar og með hefðbundnum hætti væru unnin í Reykjavík. Mér sýnist þetta frumvarp verða til þess að auka valddreifingu, sem er mjög gott.

Mig langar þó að nefna, vegna þess að þetta er eitt af stóru málunum hjá okkur pírötum, þ.e. valddreifing og réttur fólks til þess að koma að ákvarðanatöku og þeim verkferlum sem það varðar, að það getur litið út eins og hér sé um þéttingu valds að ræða. Hér er jú um að ræða fækkun lögregluumdæma. Á móti kemur, og þarf að líta til, að það er líka verið að flytja verkefni frá Reykjavík út á landsbyggðina. Í því felst valddreifingin. Svona skil ég þetta. Mér þótti mikilvægt að það kæmi fram til að það væri á hreinu.

Það er eitt við þetta mál líka sem ég vil nefna sérstaklega, sem er umsögn Persónuverndar. Það er vegna þess að Persónuvernd gerði athugasemd við það að í frumvarpinu væri veitt formleg lagaheimild til þess að skoða málaskrá og sakaskrá þeirra sem sækja um störf innan lögreglunnar og vitaskuld lögreglumanna sjálfra. Þessi háttur er hafður á í dómskerfinu þegar kemur að dómurum.

Athugasemd Persónuverndar var tvíþætt. Annars vegar að fólk ætti að vera meðvitað um þetta, hafa einhvers konar andmælarétt eða tækifæri til þess að útskýra hlutina. Þetta varðar auðvitað allt upplýst samþykki. Ég hef þær fregnir frá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni að þetta sé gert, að menn séu látnir vita af þessari upplýsingaskoðun. Það er vel, en mér finnst persónulega eins og við ættum að íhuga það alvarlega að hafa það formlega í lögunum, bæta við einni klausu sem segði til um að þetta skyldi útfæra í reglugerð og þá væri það alveg skýrt. Það er ekki eins og fólk lesi almennt landslög sem viðkemur öllu sem það gerir í lífinu, hvort sem það er að sækja um starf eða eitthvað annað. Hins vegar gerði Persónuvernd athugasemd við að upplýsingasöfnunin eða öllu heldur uppfletting í málaskrá og sakaskrá ætti sér stað óháð því um hvers konar starf væri um að ræða, að slík uppfletting færi fram óháð því hvort starfið væri löggæsla eða annað starf sem feli í sér valdheimildir af einhverju tagi.

Eins og ég kom inn á í andsvari við fyrri ræðu annars ágæts hv. þingmanns á ég það til að vera ósammála Persónuvernd. Í þetta skipti er ég það vegna þess að ég lít svo á að jafnvel störf eins og störf í eldhúsi eða við ræstingar eða því um líkt feli í sér aðgang að skjölum, aðgang að fólki, það er hægt að heyra ýmislegt, það er hægt að lesa ýmislegt. Mér finnst auðvelt að setja upp dæmi þar sem margdæmdur fíkniefnasmyglari sækir um sem ræstitæknir hjá lögreglunni. Mér þykir eðlilegt, ég tel það vera í samræmi við meðalhóf, að gera slíka athugun vegna eðlis stofnunarinnar sem er löggæsla. Það er sennilega sú stofnun sem þarf hvað helst að nýta slík gögn yfir höfuð.

Þetta vildi ég nefna vegna þess að mér finnst mikilvægt að halda umræðunni á lofti. Við þurfum alltaf að vera mjög varkár á upplýsingaöldinni og meðvituð um það hvað við erum að gera. Jafnvel ef við erum sammála því sem er verið að gera er mikilvægt að ræða það opinskátt og ítrekað til þess að sem flest sjónarmið komist að svo að við séum alveg viss um að við séum á réttri leið. Ég tel þetta því vera í lagi með þeim fyrirvara að ég mundi vilja að við bættum við smáskýringu á því hvaða rétt umsækjandi og núverandi starfsmenn lögreglunnar hafi til andmæla og útskýringa og auðvitað vitneskju þeirra um þessar upplýsingar.

Það er sérstakt fagnaðarefni í mínum huga að taka eigi burt heimildir til að setja á fót greiningardeildir. Nú þegar er ein til staðar hjá ríkislögreglustjóra, ef ég man rétt, og þykir hún duga. Það gleður mig ofboðslega mikið að sjá það frumkvæði koma frá yfirvöldum sjálfum. Það er ekki sjálfsagt að yfirvöld vilji minnka eigin valdheimildir, þvert á móti ef eitthvað er, þannig að það gleður mig sérstaklega. Það gleður mig auðvitað sérstaklega líka að það hafi aldrei þurft að nýta þessa heimild. Hryðjuverk voru réttlæting fyrir heimildinni upprunalega, væntanlega kom hún í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september 2001 án þess að ég hafi flett því upp sérstaklega. Hryðjuverk eru oft notuð til þess að réttlæta valdheimildir sem annars væru engan veginn réttlætanlegar, jafnvel þegar kemur að mjög alvarlegum glæpum á borð við morð eða álíka eða jafnvel eitthvað enn verra. Það er alltaf gott að hafa varann á en það gleður mig mikið að þetta sé tekið burt.

Ég velti þó fyrir mér, bara til þess að minna fólk á þá umræðu: Hvað ef fólk hefði séð ástæðu til þess á sínum tíma, á hvaða forsendum hefði fólk viljað stofna þessar greiningardeildir? Hefðum við íhugað að takmarka þessar valdheimildir ef einhver hefði einhvern tíma getað lýst einhverri ástæðu til að halda þeim? Ég velti því fyrir mér en ætla ekki að tala mikið meira um það vegna þess að það er greinilega ekki það sem gerðist, sem gleður mig mjög mikið.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson kom inn á það að aðalágreiningsatriði gæti orðið hvar lögreglustjóri yrði staðsettur. Það er frekar dæmigert þrætuepli þegar kemur að svona breytingum og er fólk þá auðvitað fyrst og fremst að hugsa um hvar störfin verði, hve nálægt fólkið sé stjórnsýslunni. Þótt ég beri virðingu fyrir þeim áhyggjum skil ég málið þannig að hér sé verið að flytja verkefni út á land frá Reykjavík, sem ég lít á sem valddreifingu og að koma valdinu nær fólkinu. Ég tel það jákvætt og sérstaklega í ljósi orða hv. þm. Vilhjálms Árnasonar og hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur sem fjölluðu hér um að netmálin þyrftu að lagast aðeins úti á landi og með því væri alveg hægt að dreifa verkefnum meira út á land. Ég tel það kannski ekki endilega bæta upp fyrir allar áhyggjur, þær verða alltaf til staðar, en vissulega er það fagnaðarefni að skilningur ríki á þessum vanda og það hjá stjórnarflokkunum, sérstaklega.

Hagræðingin er eitt af því sem hefur oft verið talað um í sambandi við þetta frumvarp, að með því sé verið að hagræða. Þá óttast fólk að það sé verið að spara og með að spara sé verið að skera niður, en það gleður mig að hagræðingin skuli felast í því að efla löggæsluna, eins og hv. þm. Vilhjálmur Árnason fór yfir áðan og með réttu. Það er vitað mál að löggæslan úti á landi er ekki upp á sitt besta eins og er og úr því þarf að bæta. Ekki hefur verið alveg augljóst í gegnum tíðina hvernig eigi að bæta það án þess að stórauka fjárútlát. Kannski er það á endanum eina leiðin sem hægt er að fara, en það er alla vega gott að hér ríki víðtæk samstaða um aðgerðir sem geta aukið hagræði án þess að skera niður, án þess að lækka laun eða láta þau standa í stað, án þess að fækka lögreglumönnum, án þess að gera neitt slíkt, enda er markmið enn og aftur að efla löggæsluna en ekki í sjálfu sér að spara peninga í þeim skilningi.

Mér skilst að lengi hafi verið unnið að þessu máli og ég verð að viðurkenna að fyrr í dag þótti mér svolítið eins og það væri ágreiningur um málið en ég lít svo á að í kjölfar ræðu hv. þm. Vilhjálms Árnasonar og vissulega í svörum hans við andsvörum mínum hafi áhyggjur mínar minnkað. Það gleður mig því að þær áhyggjur séu ekki endilega jafn réttmætar og ég hélt. Ég einblíndi kannski aðeins of mikið á það neikvæða sem hefur verið sagt, líka í fortíðinni. Það hefur verið unnið mjög mikið með þetta mál og það er fínt.

Mig langar líka aðeins að ræða við þetta tækifæri starf lögreglunnar almennt og kannski samskipti almennings við lögregluna, hvernig þessi tvö fyrirbæri, almenningur og lögreglan, vinna saman. Mér hefur oft þótt í gegnum tíðina ýmislegt gagnrýnivert við það hvernig fyrirkomulagið er hér á landi eða vinnubrögðin eru öllu heldur þegar kemur að lögreglunni. Nú vil ég alls ekki gagnrýna lögregluna of mikið vegna þess að ég veit að þar er hörkuduglegt fólk sem vinnur allt of mikið fyrir allt of lág laun en tel ég að það sé í raun og veru eitt af stóru vandamálunum sem lýsir sér síðan í aðgerðum sem fólk verður óánægt með. Við höfum séð fréttir í gegnum tíðina af lögreglumönnum sem hafa misnotað vald sitt. Þeir telja sig yfirleitt ekki vera að misbeita valdi sínu og yfirmenn þeirra telja þá ekki gera það en síðan kemur í ljós að svo er, vissulega samkvæmt almannaáliti, jafnvel samkvæmt lögfróðum mönnum. Stundum er þetta ósanngjarnt, það er óhjákvæmilegt eðli málsins samkvæmt, en að sama skapi verð ég að segja að mér hefur oft þótt það mega vera skýrara hvernig lögreglan á að vinna vegna þess að það er ekkert skýrt.

Nýlega sat ég fund með m.a. Stefáni Eiríkssyni, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, og hv. þm. Brynjari Níelssyni þar sem við ræddum samskipti almennings við lögregluna. Það var mjög áhugaverður fundur og þar kom ýmislegt fram. Til dæmis er ekki, fullyrði ég, almennt vinnulag þegar lögreglan hefur afskipti af fólki úti í bæ að réttindi þess séu lesin upp. Ég nefndi sérstaklega klausuna sem maður heyrir í bandarískum bíómyndum, með leyfi forseta: „You have the right to remain silent. Anything you say can and will be used against you in a court of law.“ Á íslensku þýðir þetta að viðkomandi hefur rétt til að þegja, allt sem hann segir geti og muni verða notað gegn honum í réttarsal. Svo er meira af réttindum sem ég ætla ekki að þreyta fólk á að þylja upp hér, en ég hef aldrei hitt neinn sem hefur heyrt þessa klausu á íslensku. Það stendur í lögum að lögreglumenn eigi að gera þetta, en ég veit um mörg dæmi þess að þegar lögreglan hefur haft afskipti af fólki þá hafi það spurt sérstaklega: Af hverju, hver eru réttindi mín? Þá er bara einhver derringur: Ha, ha, ha, ég þarf ekkert að segja þér það vegna þess að ég er með völd. Svona hegðun er bara mannleg en það er líka punkturinn, lögreglumenn eru mannlegir. Þess vegna er ofboðslega mikilvægt að það sé mjög skýr rammi þarna utan um.

Það er alveg sama hvað lögin segja um þetta, raunveruleikinn er sá að enginn sem ég hef talað við kannast við þessa klausu. Ég hef talað við ansi marga sem lögreglan hefur haft afskipti af, þar á meðal er ég sjálfur, ég hef orðið vitni að tveimur ofbeldisárásum sjálfur og hef verið í samskiptum við lögregluna. Ég veit ekkert hvernig lögreglumaður mundi útskýra fyrir mér réttindi mín. Það sem ég veit fyrir víst er að það er engin stöðluð lína eins og sú sem er í Bandaríkjunum. Þótt ég vilji ekkert éta upp allt sem er í bandarísku réttarfari frekar en aðrir þá er þetta eitthvað sem mér finnst að við þurfum að endurskoða. Mér finnst fullt tilefni til þess að ræða þetta þegar við tölum um löggæsluna almennt, halda því á lofti að við þurfum ekki bara að bæta löggæsluna í þeim skilningi að efla lögreglustarfið til rannsóknar á afbrotum o.s.frv., heldur þurfum við líka að efla og umfram allt verja réttarstöðu borgarans gagnvart lögreglunni. Lögreglan er ekki einfaldlega góði kallinn og glæpónar einfaldlega vondi kallinn, þetta er ekki svo einfalt, samfélög eru ekki svo einföld, fólk er ekki svona einfalt, hvorki lögreglumenn né almenningur eða glæpamenn.

Réttarstaða og réttindi fólks eru gríðarlega mikilvæg og sérstaklega að þau séu skýr, eins og spakur maður sagði einhvern tíma, með leyfi forseta: Réttindi þýða ekkert ef maður veit ekki af þeim. Það er dagsatt, það þýðir ekkert að vera með einhver réttindi ef maður veit ekki af þeim og hefur ekki færi á því að nýta þau. Sömuleiðis er mikilvægt að almenningur upplifi það sem svo að hann hafi réttindi. Borgarinn þarf að upplifa sig þannig að hann hafi réttindi. Það er ekki nóg að hann hafi þau og geti hugsanlega nýtt þau í samstarfi við lögfræðing sem hann fær einhvern tíma seinna. Það er ekki nóg. Það þarf að vera skýrt frá upphafi. Það er þess vegna eins og í Bandaríkjunum sem þessi staðlaða klausa er lesin upp fyrir fólk við handtöku alla vega, ég veit ekki með önnur afskipti.

Þegar við tölum um hryðjuverk og skipulagða glæpastarfsemi eru það málaflokkar sem eru jafnan notaðir til þess að réttlæta ýmsar valdheimildir. Aftur vil ég taka það fram að það gleður mig mjög mikið að felld hafi verið niður heimild fyrir setningu greiningardeilda. Þá vil ég líka hvetja fólk til þess að hafa þetta í huga almennt. Það má ekki vera þannig að maður segi bara: Hryðjuverk, úgga, búgga, búgga — og allt í einu séu komnar einhverjar valdheimildir. Það má ekki heldur vera þannig gagnvart skipulagðri glæpastarfsemi. Það er kannski það sem við notum helst á Íslandi þegar við erum að fríka út yfir því hvað allt sé að fara til fjandans, frekar en hryðjuverk. Hér hafa ekki verið framin nein hryðjuverk, guði sé lof, og við búum ekki við þannig ríkisvald að valdhafar sjái sér mikinn hag í því að vera með eitthvert ægihervald eins og er hjá stærri þjóðum, t.d. í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar, þar sem er her, þar sem er her sem hefur hagsmuni, her sem vill hafa hlutina á ákveðinn hátt, vill hafa heimildir, vill hafa skilning, vill hafa fjármagn og græðir á neyðarástandi hvort sem þessum fyrirbærum líkar betur eða verr. Þetta er almennt ekki staðan hér, sem er mjög gott. Helsti óvinur íslensku þjóðarinnar hefur að mínu mati ávallt verið náttúran en ekki hryðjuverkamenn eða eitthvað því um líkt. Við glímum hins vegar við skipulagða glæpastarfsemi í meira mæli, segja sumir, og þá er við hæfi og nauðsynlegt að við séum á varðbergi og hugsum alltaf, í fyrsta lagi: Erum við að ganga of langt? Í öðru lagi: Er þetta algjörlega nauðsynlegt? Í þriðja lagi: Er þetta ekki nauðsynlegt lengur?

Þegar upp koma aðstæður sem gera það að verkum að við þurfum valdheimildir umfram það sem við mundum venjulega telja nauðsynlegt eða sætta okkur við þá er mikilvægt að íhuga líka fortíðina á eftir. Það má ekki bara horfa til framtíðar, það þarf stundum að skoða aðeins fortíðina líka og sjá hvernig hlutirnir voru og endurskoða þá með reglulegu millibili og alltaf, fullyrði ég, með það að markmiði að tryggja og efla réttindi borgaranna. Það má ekki bara leggja áherslu á að gera lögregluna sterkari, auka möguleika hennar á að rannsaka mál. Það er auðvitað mikilvægt og eitt af höfuðmarkmiðum lögreglunnar en það þarf alltaf að vera innan ramma borgararéttinda. Við eigum að hugsa um þau fyrst og fremst.

Í fullkomnum heimi væri lögreglan til þess að vernda réttindi borgaranna, en við búum ekki í fullkomnum heimi og þar sem lögreglan hefur vald er alltaf tækifæri til þess að ganga á réttindi manna, ýmist viljandi eða óviljandi. Það er ekkert mál að gera það óviljandi, það er mjög einfalt. Þegar eitthvað gerist sem mönnum finnst ægilega mikilvægt að bregðast við eru þeir fljótir að réttlæta eitthvað sem væri annars ekki talið réttlætanlegt. Það er bara eins og það er.

Það er þess vegna sem ég vil nefna og tala um þetta alveg sérstaklega hér, ekki bara um heimildina fyrir greiningardeild, sem hefur blessunarlega verið tekin burt, heldur líka um umsögn Persónuverndar um hvernig farið er með upplýsingar og hver viti af því hvernig sé farið með upplýsingarnar. Það er gríðarlega mikilvægt að við séum alltaf með þetta í huga vegna þess að frelsið tapast í smáum skömmtum, eitt skref í einu. Því er stundum líkt við að sjóða frosk. Froskurinn er dauðadæmdur áður en hann fattar að það sé verið að sjóða hann. Það er alveg eins með frelsið og það er alveg eins með vald. Við verðum alltaf að vera á varðbergi og við verðum alltaf að passa okkur. Um leið og við hættum því göngum við of langt því að það verður alltaf tilefni til þess að auka valdheimildir. Nóg um það í bili.

Ég er í grundvallaratriðum hlynntur þessu frumvarpi eins og það er og hef ekki rekist á neitt enn þá sem ekki má ýmist laga með svo sem einni klausu eða hefur nú þegar verið lagað. Ég lýk bara ræðu minni á þeim orðum.