143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég skil hann þannig að hann telji að þetta sé hæfilegt skref að sinni. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég sé í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að landið sé eitt umdæmi. Lögreglustjórinn getur síðan falið stjórnendum á einstökum stöðum og einstökum svæðum tiltekin verkefni, en þessi viðfangsefni eru auðvitað þannig að þau geta verið í fleiri en einu umdæmi eins og landamæraerjur á milli einstakra embætta hér áður og fyrr eru ágætt dæmi um, hvort sem það er við Akranes og Borgarnes eða einhvers staðar annars staðar.

Þingmaðurinn nefndi hins vegar ríkislögreglustjóra og það er annað mál sem er ástæða til þess að leggja áherslu á. Það er algerlega fráleitt að vera að byggja upp hér í Reykjavík tvö lögregluembætti, embætti ríkislögreglustjóra annars vegar og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu hins vegar. Ríkislögreglustjóraembættinu var komið á fót sem aukastjórnsýsluembætti á þeim forsendum að það ætti að sinna mjög afmörkuðum stjórnsýsluhlutverkum en ekki að verða neitt nýtt bákn. Það er hins vegar þegar orðið að mjög miklu bákni, það eru gríðarlegar fjárveitingar og ofboðslegt mannahald. Það er engin ástæða til þess að vera með tvo lögreglustjóra í Reykjavík. Þess vegna er það eindregin skoðun mín að það eigi að fela verkefni sem nú eru hjá ríkislögreglustjóra lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og hann að fara með þau. Þar væri mjög mikla hagræðingu að sækja.

Ég vildi spyrja hv. þingmann að lokum hvort það hafi verið rætt í nefndinni að flytja Lögregluskólann undir menntamálaráðuneytið, eins og við höfum verið að flytja aðra fagmenntun t.d. í landbúnaðinum frá landbúnaðarráðuneytinu undir menntamálaráðuneytið, og eins hvort menn hafi rætt að fela sýslumannsembættunum fleiri verkefni í opinberri þjónustu, þ.e. að (Forseti hringir.) afgreiða fleiri erindi almennings þannig að fólk geti snúið sér til þessara embætta með allt sem það hefur að sækja til hins opinbera.