143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[16:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kann að meta að hv. þingmaður skuli vekja máls á þessu af því að þetta er vissulega eitthvað sem er þess virði að ræða. Hv. þingmaður hefur hárrétt fyrir sér þegar hann nefnir að stofnanir, og sérstaklega stofnanir með völd, hafi tilhneigingu til að þenjast út, þær finna alltaf réttlætingar fyrir sjálfum sér og þurfa alltaf eitthvert aðhald frá okkur í ríkinu.

Þá eru það tvær síðustu spurningar hv. þingmanns. Ég man ekki til þess að það hafi verið rætt í nefndinni að flytja Lögregluskólann undir menntamálaráðuneytið. Ég missti að vísu af einum fundi vegna annarra þingstarfa og get ekki útilokað að það hafi verið rætt á þeim fundi, en það var alla vega ekki haft hátt um það.

Sömuleiðis var ekki rætt svo ég muni að fela sýslumanni fleiri verkefni, ég er reyndar búinn að gleyma hvernig hv. þingmaður orðaði það. Það var hins vegar rætt að flytja verkefni frá ráðuneyti til sýslumanna og svolítið mikið rætt um það og er það hluti af markmiðinu hér, ef ég skil rétt, og eitt af því sem mér líkar vel í þessu frumvarpi.

Hv. þingmaður fullyrðir að það sé fráleitt að byggja hér upp tvö lögregluembætti. Það er umræða sem ég verð að viðurkenna að hafa ekki tekið neinn þátt í og ég treysti mér ekki til þess að vera algjörlega sammála eða algjörlega á móti en er vissulega til í að ræða það betur, ég tala nú ekki um ef það sparar peninga, það er alltaf skárra að geta sparað peninga. Mér finnst þó ekki að við eigum að fara í þennan málaflokk fyrst og fremst á þeim forsendum, heldur fyrst og fremst til þess að tryggja réttaröryggi fólksins í landinu. Svo verð ég að viðurkenna að ég hef ekki næga þekkingu á því hver munurinn er, ef einhver er, á störfum ríkislögreglustjóra og lögreglunnar í Reykjavík. Það er eitthvað sem ég mundi vilja skoða með hv. allsherjar- og menntamálanefnd og sé ekkert því til fyrirstöðu að ræða það betur, bæði þar og á þingi eða yfir kaffibolla með hv. þingmanni, ef hann kýs. Ég vona að þetta hafi svarað spurningum hv. þingmanns.