143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[16:33]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er það sem ég sem landsbyggðarþingmaður hef vissulega áhyggjur af. Ég bý í sveitarfélagi sem sameinaðist og þegar sveitarfélög sameinast breytist ýmislegt. Á báðum stöðum var til dæmis sýslumaður. Annar var á Norðurlandi vestra og hinn Norðurlandi eystra, þ.e. í Ólafsfirði og á Siglufirði. Nú hefur öll starfsemi verið lögð niður í Ólafsfirði og flutt yfir til Siglufjarðar. Fólki fækkaði. Þegar það gerðist var íbúaþróun ekki endilega í þá veru að það krefðist þess og mér finnst þetta áhyggjuefni. Af því að það liggur ekki fyrir neins staðar hvernig þetta á að vera, verkefnisstjórnin hefur ekki hafið störf og víða eru gerðar miklar athugasemdir við að svo sé ekki, veit maður ekkert hvernig landið liggur.

Eins og ég sagði í ræðu minni held ég að það geti orðið til þess að störfum verði fækkað á einum stað og fjölgað á öðrum. Hugsanlega verður fólki boðinn einhver flutningur en það er hvorki víst að fólk vilji það né að það hafi tækifæri til þess. Það er hreinlega sums staðar í hálfgerðum átthagafjötrum eins og við þekkjum úti á landsbyggðinni þar sem menn ganga ekkert frá húsum sínum eða flytja sig um set. Eins og ég segi vill fólk kannski bara vera þar sem það er.

Ég hef áhyggjur af því að þetta sé það sem við getum átt von á, að þó að það sé talað um að það verði ekki bein fækkun á starfsmönnum geti þetta orðið niðurstaðan.