143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[16:43]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég tek undir það, eins og þingmaðurinn segir, að maður rekur augun í þetta með staðsetninguna og að verkefnisstjórnin hafi ekki hafið störf áður og lagt fram einhverjar tillögur sem við gætum fjallað um hér. Mér hefði þótt það mun skynsamlegra. Nefndin hefði þá getað tekist á um það í sinni vinnu ef það hefði legið fyrir. Í staðinn finnst mér ég vera að fara að samþykkja eða synja hér einhverju sem ég veit ekki nákvæmlega hvernig á að líta út. Mér finnst það óheppilegt.

Ég tek undir að það er ekki gott og það kemur, eins og hv. þingmaður nefndi, fram í umsögnum að það er viðbúið að, eins og segir í umsögn Landssambands lögreglumanna sem ég hef vitnað hér svolítið í, með leyfi forseta:

„… sú hætta getur óumflýjanlega skapast að löggæslan safnist utan um „höfuðstöðvakjarna“ lögreglunnar í hverju umdæmi fyrir sig, með þeim afleiðingum að hinar dreifðari byggðir landsins njóti lítillar eða jafnvel engrar löggæslu.“

Það er einmitt það sem ég sem þingmaður Norðausturkjördæmis hef þurft að tala fyrir, þ.e. þetta með lögreglustöðina á Seyðisfirði þar sem er nú komin vínbúð. Þar leggur ferjan Norræna að landi. Auðvitað er ekki gott að þetta sé svona. Það má vel vera að hægt sé að skipuleggja störfin með öðrum hætti þannig að þar verði byggð upp veruleg tollþjónusta og eitthvað slíkt. Ég er sammála þingmanninum um að það verður tekist á um það heima í héraði líka hvar þetta eigi að vera. Mér finnst það ekki endilega gott. Það hefðu átt að koma fram einhverjar hugmyndir sem landshlutasamtökin hefðu getað tekist á um frekar en að þetta sé algjörlega sett svona út. Svo má vel vera að það sé ekki (Forseti hringir.) það sem þau hefðu viljað.