143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[16:45]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég segi er ég sammála því nefndaráliti sem liggur fyrir og þeim tillögum sem liggja fyrir varðandi það hvernig eigi að gera þetta. Mér finnst mikilvægt að draga fram í umræðuna og vekja athygli þingmanna á því hvað verði eftir þegar menn ljúka þessari afgreiðslu. Hvað á þá eftir að afgreiða? Ég hef áhyggjur af því að þetta fari í einhver hrossakaup eða pólitíska togstreitu og einhver sjónarmið ráði sem við viljum ekki endilega út frá hagkvæmni eða bestu skynsemi, þ.e. einhver önnur öfl ráði. Þess vegna ræddum við það fyrr í umræðunni, m.a. í andsvari við ræðu minni, þegar velt var vöngum yfir hvaða atriði ættu að ráða staðsetningu sýslumannsembættis, lögreglustjóraembættis og þá hvernig við mundum skera úr um það ef ágreiningur kæmi upp á milli samtaka sveitarfélaga og Stjórnarráðsins.

Hæstv. innanríkisráðherra fór um allt land og hitti bæði lögregluna og fulltrúa sveitarfélaganna. Það mæltist afar vel fyrir. Ég held að menn hafi róast og fundið að þarna ætti ekki að skera niður heldur reyna að efla þjónustuna, enda hefur það svo sem alltaf verið markmiðið.

Eftir sem áður langar mig aðeins að heyra nánar af því sem við nefndum um Höfn í Hornafirði og Seyðisfjörð. Hvernig getum við látið einhvern aðila þjónusta svona stór svæði og tryggt að þjónustan sé í lagi, jafnvel þó að þar verði ekki sýslumannsembætti heldur starfsstöð með löglærðum aðila? Hver er þá möguleikinn á því að sveitarfélögin komi inn í verkefnið með ríkinu og búi til öflugri skrifstofur með þjónustu í fleiri málaflokkum, ekki bara þjónustu fyrir hönd hins opinbera, þ.e. ríkisins, heldur líka fyrir (Forseti hringir.) hönd sveitarfélaganna?