143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[17:00]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er mikilvægt að halda mjög mörgu hér á lofti af því að jafnframt hefur komið fram í umræðunni að landsbyggðarþingmenn séu sérstaklega sáttir við frumvörpin. Ég held að það sé alveg rétt, við greinum að sjálfsögðu jákvæðan tón því að þetta eru að uppistöðu til ágætisfrumvörp og þau eru að mörgu leyti til þess fallin að bæta stjórnsýsluna, en á þeim eru ágallar.

Mig langar í ljósi þess að hv. þingmaður talaði um gegnsæi, að spyrja hvað honum finnst um að í umsögnum Landssambands lögreglumanna kemur vissulega fram að mjög skiptar skoðanir eru á málinu, en í umsögn þeirra er almennt ákveðin neikvæðni og eru margar athugasemdir gerðar þar. Og af því að við höfum vitnað í hversu vel hafi tekist til hjá ríkisskattstjóra þá velti ég því fyrir mér hvort við förum eitthvað vitlaust í málið, þ.e. hvernig við hefðum átt að reyna að innleiða svona breytingar. Þar var allt starfsfólk á öllu landinu með eins konar heimskaffisumræðu, eða hvað við viljum kalla það, þannig að lagðar voru fram hugmyndir, og ekki bara einu sinni, það var gert í nokkur skipti. Svo urðum við ekki vör við að búið væri að breyta þessu öllu, sem segir okkur auðvitað að það hefur tekist vel.

Síðan langar mig að spyrja hvað hv. þingmanni finnst um að Ríkisendurskoðun verði fengin til þess að taka út þær breytingar sem átt hafa sér nú þegar, sérstaklega á löggæslunni, þeim hefur verið ætlað að innleiða ákveðna hluti. Fullyrt er að ekki hafi tekist sem skyldi, a.m.k. ekki í öllum þeim þáttum sem þar voru undir. Það hefði auðvitað verið mjög áhugavert að búið hefði verið að gera það. En hvað finnst hv. þingmanni, eigum við að fara fram á að slíkt verði gert?