143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[17:07]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég deili áhyggjum með hv. þingmanni varðandi það hvernig menn fara með hugsanlegan halla á embættum og hvernig almennt er farið með það ef menn hafa verið reknir í mínus og svo framvegis. Það verður að viðurkennast að ekki hefur tekist með viðunandi hætti að ná utan um hvaða reglur gilda þá. Þeim er breytt sitt á hvað frá því að vera með frystingarsamninga sem síðan eiga að renna út eftir tvö, þrjú ár ef reksturinn er kominn í lag, yfir í það að hótanir hanga yfir um að þetta verði tekið af stofnunum á þremur, fjórum árum með gríðarlega háum upphæðum og náttúrlega hræðilegum afleiðingum í sumum tilfellum o.s.frv.

Á hinn bóginn er augljóst að ekki er hægt að búa við það að einstaka stofnanir geti farið fram úr fjárveitingu og síðan fengið aukafjárveitingar eða verið skornar ítrekað niður úr snörunni, það þarf auðvitað að taka á þeim stjórnunarvanda líka.

Ég verð að viðurkenna að í umfjöllun hv. allsherjar- og menntamálanefndar kom sú umræða ekki upp svo ég viti, um að gera úttekt á því hvað væri búið að gera og hvernig það hefði reynst o.s.frv. Nefndin gerði heldur ekki kröfur um kostnaðarútreikninga við útfærsluna á þessum verkefnisstjórnum eða samráðshópum. Oftast er þetta þannig að hver ber sinn hlut þegar menn eru kallaðir saman, Samband íslenskra sveitarfélaga ber sinn hlut, ríkið sinn hlut o.s.frv. En það er alveg ljóst að þarna er kannski eitthvað af því sem bætist við mjög háan ráðgjafarkostnað núverandi hæstv. ríkisstjórnar að menn þurfi að kaupa sér aðstoð við sumt af því sem hér er verið að gera. En almennt er það nú þannig að menn verða ekki búnir að skera niður mannauðinn hjá ráðuneytunum ættu þeir að vera fullfærir um að sinna þessu, eins og var raunar gert við sameiningu ráðuneyta og fékk mjög góða umsögn hjá Ríkisenduskoðun. Þó voru þar sameinuð tvö stór ráðuneyti, (Forseti hringir.) heilbrigðis- og velferðarráðuneyti, svo dæmi sé tekið, (Forseti hringir.) en það er gott að vekja athygli á þessum þáttum þannig að þeir verði (Forseti hringir.) leystir í framhaldinu.