143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

fyrirspurn um lekamálið í innanríkisráðuneytinu.

[13:35]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Erindi mitt varðar fyrirspurn frá okkur hv. þm. Merði Árnasyni um svokallað lekamál sem ég hef tekið upp undir þessum dagskrárlið nokkrum sinnum áður. Innanríkisráðuneytið hefur borið fyrir sig að málið sé til rannsóknar hjá lögreglu og því sé hvorki rétt né hægt að svara þinginu. Nú hefur ráðuneytið sent fjölmiðlum yfirlýsingu um málið og birt á vefsíðu sinni. Þá getur innanríkisráðherra ekki lengur skorast undan því að svara þeirri fyrirspurn sem lögð var fram og snýst meðal annars um hvort minnisblað eða önnur gögn hafi verið til í ráðuneytinu um mál Tony Omos. Ég vil því biðja virðulegan forseta að ganga eftir því að ráðuneytið svari fyrirspurn okkar alþingismannanna og reyndar langar mig að biðja virðulegan forseta að svara því undir þessum dagskrárlið hvort hann muni ekki örugglega verða við þeirri beiðni minni.