143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

fyrirspurn um lekamálið í innanríkisráðuneytinu.

[13:39]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef áður vísað til þess í umræðum um þetta mál að að minnsta kosti 3. og 4. spurningin í fyrirspurn okkar varðar alls ekki lögreglurannsóknina heldur snýst um hvað hafi verið til skoðunar í rannsókn ráðuneytisins á meintum leka og hvað hafi verið til skoðunar í rannsókn rekstrarfélags Stjórnarráðsins á meintum leka.

Þetta kemur lögreglurannsókninni ekkert við. Nú hefur hins vegar komið fram að minnisblað eða önnur gögn um Tony Omos eru til í ráðuneytinu. Fyrsta spurningin varðar það. Nú hefur innanríkisráðuneytið tjáð sig um þetta mál, ef ég má orða það svo, á vef ráðuneytisins og ég tel það algjörlega óþolandi fyrir þingmenn að þá treysti ráðuneytið sér ekki til að svara þinginu, spurningum sem eru beinar og heiðvirðar á allan hátt.