143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

tillögur verkefnastjórnar í húsnæðismálum.

[13:45]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það var tilkynnt opinberlega í morgun að málið væri á dagskrá ríkisstjórnarfundar í morgun. Ég gekk einfaldlega út frá því að ráðherrar ríkisstjórnarinnar væru ákafir til verka í þessu mikla hagsmunamáli fyrir þjóðina. Það kæmi mér á óvart ef menn hafa ekki skýr svör á reiðum höndum við einföldum réttlætisspurningum í þessu efni.

Ég ítreka þess vegna spurninguna: Er núna loksins kominn möguleiki á því að forsætisráðherra svari okkur hvort þeir sem leigja hjá lokuðum leigufélögum muni njóta sama réttar og fá verðtryggð lán þeirra félaga lækkuð til jafns við þá sem eiga húsnæði? Þetta er einföld réttlætisspurning. Það hefur hingað til verið vísað til þessarar vinnu. Er ekki hægt að fá skýrt svar við þessu?

Hin spurningin um hækkun húsaleigubóta: Er ekki hægt að segja það skýrt hvort þær verði hækkaðar? Ætlar ríkisstjórnin að verja fjármunum í það? Hún er að leggja fram frumvörp núna um gríðarleg fjárútlát til annarra hópa vegna annarra vandamála (Forseti hringir.) á húsnæðismarkaði, sem eru skuldavandamálin. Getur hún ekki svarað því (Forseti hringir.) hvort hún ætli að láta eitt yfir alla ganga og reyna að tryggja lágmarksréttlæti?