143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

lekamálið í innanríkisráðuneytinu.

[13:54]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Lekamálið svokallaða sem við höfum rætt töluvert á þingi er aftur í fréttum og ekki að ástæðulausu. Það lítur þannig út samkvæmt rannsókn lögreglunnar að margumrætt minnisblað hafi orðið til í framhaldi af fyrirætluðum mótmælum samtakanna No Border og varð því miður til þess að þar upplýstist um persónuleg mál fólks sem aldrei hefði átt að gerast opinberlega.

Innanríkisráðherra hefur ekki aðhafst í þessu máli með fullnægjandi hætti eins og hún hefði átt að gera strax þegar málið kom upp þegar ljóst var að um refsiverða háttsemi væri að ræða á vinnustað hennar í lok nóvember sl.

Í staðinn er bent á aðrar stofnanir, lögregluna, Útlendingastofnun og Rauða krossinn, sem varð til þess að þeir aðilar sáu ástæðu til þess að senda frá sér tilkynningu þess efnis að þetta minnisblað væri ekki til á þeirra málaskrá.

Rauði krossinn bar það líka af sér. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé í raun rík ástæða fyrir hæstv. ráðherra að biðja þessa aðila afsökunar. Eða heldur ráðherra sig við það að þeir aðilar sem hún bendlaði við þetta mál á sínum tíma eigi enn þá einhverja sök á þessu máli?

Hver er staða hins almenna borgara sem stjórnvöld vilja hugsanlega koma höggi á? Hvernig getum við verið viss um að þeir sem standa að slíkum rógsherferðum eins og hér átti sér stað geri það ekki aftur?

Að halda því fram að málið sé pólitískur spuni er ömurlegt og það snýr að varnarlausu fólki sem fékk að kenna á því hvernig stjórnvöld geta í krafti valda svert mannorð þess. Það segir auðvitað mest um þá sem létu gera þetta.

Ef gögn eru búin til í ráðuneytinu hljóta þau að fara þar út með einhverjum hætti. Því spyr ég: Hvernig getur ráðherrann sagt ítrekað að hún geti staðið við allt sem hún hefur sagt (Forseti hringir.) þegar nú liggur fyrir eftir rannsókn lögreglu að slíkt stenst ekki?