143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

lekamálið í innanríkisráðuneytinu.

[13:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina. Ég held að mikilvægt sé í þessu eins og svo mörgu öðru, af því að hér er tekið nokkuð hvasst til orða, að árétta það sem ítrekað hefur komið fram: Rannsókn málsins er ekki lokið. Það getur enginn fullyrt um það, eins og var gert, að starfsmenn innanríkisráðuneytisins hafi ástundað refsiverða háttsemi. Rannsókn er ekki lokið.

Ég hef ítrekað sagt að við skulum leyfa því máli að klárast. Ráðuneytið hefur ekki getað svarað fyrir það allt og það ræðst af því að rannsókn er í gangi. Ég tek reyndar undir það sem þingmenn töluðu um áðan varðandi svar innanríkisráðuneytisins sem var gefið á þeim tíma þegar rannsókn var að hefjast, rannsóknin hefur tekið miklu lengri tíma og full ástæða til að hraða þessu svari eins og við mögulega getum og láta það þá liggja út af sem ekki er hægt að svara vegna rannsóknarinnar sem tekur lengri tíma.

Ég endurtek það sem ég hef áður sagt um þetta mál og það er orðið flókið og snúið og menn geta reynt að halda því fram að hér sé ekki á ferðinni pólitískur spuni. Ég er þeirrar skoðunar að það sé búið að vera þannig lengi. Ég er reyndar þeirrar skoðunar, og mun ekki úttala mig um það fyrr en rannsókn er lokið, að þetta sé meira en pólitískur spuni, að þetta sé talsvert ljótur pólitískur leikur. Málið snýst miklu meira um þá sem hér stendur en þann sem málið á að snúast um, sem er umræddur hælisleitandi. Það að menn skuli halda því fram að minnisblöð eða samantektir sem gerðar eru um slíka einstaklinga séu eitthvað óeðlilegt — það er alvanalegt að það sé gert til þess að fara yfir það.

Ég tek undir að ef það gerðist — og ráðuneytið fann því ekki stað, af því að spurt er hvað við höfum gert, við fórum yfir allt í ráðuneytinu til að kanna það, við fundum því ekki stað — finnist vísbendingar um að gagnið hafi farið á óeðlilegan hátt út úr ráðuneytinu bregðumst við að sjálfsögðu alvarlega við því.

Hér er talað um að menn fari ekki alveg rétt með staðreyndir. Þegar ég hef rætt þessi mál á þingi — það eru í gangi tvö gögn í þessu máli, annars vegar samantekt frá ráðuneytinu sem ég er ekki í stöðu til að (Forseti hringir.) upplýsa um, má ekki, og hins vegar aðrir hlutir (Forseti hringir.) sem búið er að bæta við hlutum sem við í ráðuneytinu könnumst ekki við og getum ekki tekið ábyrgð á. Í því felast meiðandi ummæli gagnvart umræddum aðila og ráðuneytið getur ekki axlað ábyrgð á því.