143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

lekamálið í innanríkisráðuneytinu.

[14:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ráðherra hefur ítrekað sagt úr þessum ræðustól að hún geti ekki upplýst málið. Það er í lögreglurannsókn. Á ég að búa til einhverja atburðarás og greina þinginu frá henni? Það er sagt að ég sé að bregðast skyldu minni með því að upplýsa ekki þingið. Ég get ekki upplýst þingið. Ég veit ekki hvernig upplýsingarnar fóru. Hluti af þeim upplýsingum sem fóru er ekki til í ráðuneytinu. Ég get ekki upplýst það.

Ég bið menn að virða manni það til vorkunnar. Ég get ekki farið að búa til sögu af því hvernig þetta gerðist þegar ég get ekki upplýst það. Það er málið og ég ítreka það sem ég hef áður sagt: Ráðuneytið hefur reynt að vanda þetta mál eins mikið og það hefur mögulega getað. Þegar menn segja að ég hafi bent á einhverja aðra er það rangt. Ég útskýrði fyrir þingheimi hvað svona samantektir sem umræðan hefur snúist um væru. Þær eru brot úr gögnum undirstofnana ráðuneytisins, afgreiðslur á ýmsum stigum hjá ýmsum stofnunum. Ég hef aldrei bent á neinn annan í þessu máli, ég hef ítrekað sagt að ég geti ekki útskýrt málið. Ég fagnaði rannsókn vegna þess að ég get ekki útskýrt það.

Á því get ég ekki (Forseti hringir.) borið ábyrgð, en ef það kemur í ljós að eitthvað hafi gerst í innanríkisráðuneytinu eða annars staðar sem ekki er í lagi, að kerfið hafi á einhvern hátt brugðist, verður að sjálfsögðu tekið á því.