143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

upplýsingar um hælisleitanda.

[14:02]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að kvarta yfir goggunarröðinni í þinginu. Þingflokksformenn eiga að fá orðið á undan (Gripið fram í.) óbreyttum þingmönnum. (Gripið fram í.) Þannig hefur það verið útskýrt fyrir mér þegar ég hef ekki fengið orðið sem óbreyttur þingmaður að þingflokksformenn gengju fyrir. Nú vill svo til að ég er að fjalla um sama mál og þingmaðurinn á undan mér. Ég hefði viljað fá útskýringar á því áður en ég fór í pontu. Annars verður þetta sett upp þannig hjá hæstv. ráðherra að það sé verið að beita hæstv. ráðherra pólitískum ofsóknum. Þetta lekamál er það sannarlega ekki í mínum huga og hefur aldrei verið. Mér finnst með ólíkindum að með því að framfylgja lögbundnu hlutverki Alþingis, að veita framkvæmdarvaldinu aðhald, eigi ég að vera komin í pólitískar ofsóknir.

Það vill svo til að ég er mjög ánægð með margt af störfum hæstv. ráðherra. Í þeirri nefnd sem ég á sæti í um málefni útlendinga hef ég fagnað því hvernig hæstv. ráðherra hefur staðið að málum. Ég get hins vegar ekki fagnað því hvernig hefur verið farið með þetta mál, þetta svokallaða lekamál. Í úrskurði héraðsdóms er staðfest með dómi Hæstaréttar nr. 255/2014, um svokallað lekamál, að lögreglurannsókn hafi leitt í ljós að lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu hafi tekið saman minnisblað um hælisleitandann Tony Omos 19. nóvember sl. að beiðni skrifstofustjóra í ráðuneytinu.

Nú get ég ekki haldið áfram en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra og fá ítrekun á því — ég ætla að fara ítarlegar í spurningu mína á eftir — hvort hæstv. ráðherra líti virkilega þannig á mig að ég sé með (Forseti hringir.) pólitískar ofsóknir ef ég fjalla um þetta mál í þinginu.