143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

upplýsingar um hælisleitanda.

[14:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Bara til að árétta það geri ég sem hér stend engar athugasemdir við það að Alþingi spyrji um þessi mál. Engar. Ég tel það eðlilegt og hef aldrei vikið mér undan því þegar talað hefur verið um þetta mál hér á þingi.

Ég árétta hins vegar það sem ég hef áður sagt og ítreka það líka við hv. fyrirspyrjanda að rannsókn er ekki lokið. Það sem gerðist um helgina er úrskurður í því hvort eigi að fá umrædda blaðamenn sem birtu upplýsingar til að segja hvaðan þeir fengu þær upplýsingar. Ráðuneytið hefur ekki fengið nein svör frá lögreglunni um niðurstöðu eða málsmeðferð eða neitt slíkt. Það eina sem ég bið þess vegna um er að menn fái að klára þau störf. Ég á mjög erfitt með að tjá mig efnislega um málið vegna þess að ég vil sýna þessari rannsókn þá virðingu að það sé ekki verið að hlutast til um eða blanda sér í það með neinum hætti.

Ég sagði áðan og ítreka það að ég mun skýra það betur þegar ég fæ tækifæri til þess að halda uppi vörnum fyrir ráðuneytið í málinu. Ég get ekki gert það á meðan málið er í efnislegri meðferð lögreglu. Það væri að mínu mati óeðlilegt að ráðherra gerði það. Ég geri ekki lítið úr málinu, ekki misskilja mig, og ég ítreka að ef eitthvað gerðist sem átti ekki að gerast mun ég taka á því. En mér er ekki kunnugt um það þannig að ég get ekki refsað neinum eða gripið til aðgerða þegar ég veit ekki hvað gerðist. Þess vegna vil ég bíða eftir því.

Ég er ekki með neinar ásakanir í garð þingmannsins um að hún sé með pólitískar ofsóknir gagnvart mér. Ég endurtek það sem ég sagði áðan að ég hef upplifað þetta mál, og ætla ekkert að fara yfir það nákvæmlega hér, sem pólitískan spuna að hluta til og sem pólitískt ljótan leik. Ég mun útskýra það síðar. Ég veit alveg að í því felst ákveðinn dómur. Það breytir engu um það að hafi það gerst, hvar sem það gerist í stjórnsýslunni, og það gerist mjög oft, þetta er ekki fyrsta málið þar sem við þingmenn lesum eitthvað í fjölmiðlum sem á heima í stjórnsýslunni, lít ég það mjög alvarlegum augum. (Forseti hringir.)

Ég hugsa nefnilega, virðulegur forseti, að ég líti leka nokkuð alvarlegri augum en hv. þingmaður.