143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

málefni Landsbankans.

[14:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Um helgina bárust fregnir af því og var ítarleg fréttaskýring í Morgunblaðinu um þrátefli Landsbankans og slitastjórnar eða gamla Landsbankans. Ég vildi þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra út í þau mál sem eru mjög stór, enda eru bankamálin mjög stór og tengjast okkur, hvort sem þau snúast að beinum ríkisbanka eða öðrum bönkum. Það er einfaldlega vegna þess að bankakerfið er, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að stórum hluta á ábyrgð skattgreiðenda. Það er bæði til komið út af kerfislegri áhættu og einnig út af því alræmda innstæðukerfi Evrópusambandsins sem okkur ber að taka upp.

Í þessu tilfelli er um að ræða að ljóst er að nýi Landsbankinn verður að semja um gjaldeyrisskuld sína við gamla Landsbankann. Samkvæmt fréttaskýringunni virðist vera vonarglæta hvað það varðar og við vonum að það náist niðurstaða í það mál. Það kom hins vegar og hefur komið mörgum á óvart að á sama tíma og við erum í óvissu hvað þá hluti varðar og ýmislegt annað sem varðar bankamálin sjáum við, ef fregnir eru réttar, að ríkisbankinn, sem er stór hluti af efnahag ríkisins, hefur sótt um lóð á dýrasta stað í borginni eða nánar tiltekið við höfnina. Þó að mjög eðlilegt sé að horft sé til þess að hafa höfuðstöðvarnar á sem fæstum stöðum og ná hagræði í því hljóta menn að spyrja hvort þetta sé skynsamleg og eðlileg ráðstöfun. Það er svo sannarlega mikilvægt að hafa armslengd milli banka og stjórnmálamanna en ákvarðanir sem þessar tengjast fjárhag ríkisins á beinan hátt. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta haf verið rætt á vettvangi ríkisstjórnar og hvaða skoðun hæstv. ráðherra hefur á því, og einnig hvernig gangi með skuldamál gamla og nýja Landsbankans.