143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

málefni Landsbankans.

[14:15]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Til að ljúka umræðunni um skuldabréf milli gamla Landsbankans og þess nýja þá held ég að fullt tilefni sé til þess nú þegar menn eru að reyna að leysa úr þeim vanda að þeir skoði hvernig hann varð til því að það getur haft eitthvað um það að segja hvernig rétt er að leysa úr honum. Við verðum að vona að menn séu að skoða það en hugsanlega er tilefni til að kanna það enn frekar eins og hv. þingmaður hefur bent á.

Hvað varðar bónusana þá er ég sammála hv. þingmanni, ef ég skildi hann rétt, um að þeir hafi myndað mjög hættulegan hvata og átt stóran þátt í því að svo fór sem fór, ekki bara í fjármálakerfinu á Íslandi heldur víðs vegar um heim og þar af leiðandi sé mjög mikið til þess vinnandi að koma í veg fyrir að slíkir óeðlilegir hvatar verði til aftur. Ef það þýðir að við þurfum á einhvern hátt að fara gegn leiðsögn Evrópusambandsins þá getur vel verið að við þurfum að láta okkur hafa það. Ég held að við séum alveg í aðstöðu til þess og jafnvel að Evrópusambandið ætti að fylgja leiðsögn og reynslu Íslendinga í þeim efnum frekar en öfugt.