143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

málshefjendur í óundirbúnum fyrirspurnum.

[14:17]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Til eru reglur sem er ekkert haldið mikið að þingmönnum en þær kallast vinnureglur forseta Alþingis um stjórn þingfunda. Í þeim er kveðið á um hvernig eigi að túlka þingsköp, óundirbúnar fyrirspurnir, hvernig menn skuli koma að o.s.frv.

Eins og þetta hefur verið gert hingað til hafa formenn flokka og þingflokksformenn verið ofar í goggunarröðinni við það að geta veitt ráðherrum aðhald, þ.e. í óundirbúnu fyrirspurnum, sem er svolítill galli. Venjulegur þingmaður hefur síður tækifæri, og mjög sjaldan tækifæri, til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald sem er nokkuð sem vantar.

Meðan reglurnar eru svona er spurning hvort þingforseti haldi þær ekki, en í framtíðinni mætti bæta við þennan tíma þannig að í staðinn fyrir að það væri hálftími tvisvar í viku mætti kannski vera klukkutími tvisvar í viku. Fyrri hálftíminn væri eins og hann er, formenn og þingflokksformenn veittu aðhald (Forseti hringir.) og kæmust fyrst að, seinni hálftímann fengju aðrir (Forseti hringir.) þingmenn og gætu spurt ráðherra. Hvernig væri það?