143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[15:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég bið nefndarformanninn afsökunar á þessum drætti. Það sem upphaflega stóð til var að lækka gjöld ríkisins á yfirstandandi ári í samræmi við yfirlýsingar og fyrirheit ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninga í lok síðasta árs. Það loforð ríkisstjórnarinnar um gjaldalækkanir á yfirstandandi ári var um að lækka gjöld hins opinbera um 1% á yfirstandandi ári. Nú leggur meiri hluti nefndarinnar til í þessum breytingum við 2. umr., ef ég hef skilið hv. formann rétt, að breytingin taki ekki gildi 1. janúar sl. og gildi þar af leiðandi ekki fyrir yfirstandandi ár heldur taki hún gildi á því sem næst miðju ári, þ.e. 1. júní. Þá hlýtur maður að spyrja, í ljósi þess að gefin voru skýr fyrirheit um þessar lækkanir við gerð síðustu kjarasamninga fyrir yfirstandandi ár: Gerir formaðurinn ekki ráð fyrir því að lækka gjöldin um 2% fyrir vikið fyrst lækkunin á aðeins að ná til síðari helmings ársins, þannig að launþegum sé skilað þeirri gjaldalækkun sem gefin voru fyrirheit um við gerð kjarasamninganna í desember og urðu þess valdandi að launþegar samþykktu þá kjarasamninga sem þá lágu fyrir? Er ekki hægt að treysta því varðandi yfirlýsinguna um 1% lækkun fyrir allt árið að ekki sé verið að skera hana niður þannig að hún gildi aðeins fyrir helminginn af árinu heldur hækki prósentutalan á móti sem nemur styttri gildistíma lækkunarinnar?