143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega þannig, eins og hv. þingmaður bendir á, að í kostnaðarmati fjármála- og efnahagsráðuneytisins er gert ráð fyrir því að hér sé um 460 millj. kr. lækkun á ársgrundvelli sem væntanlega þýðir þá, ef hún tekur ekki gildi fyrr en á miðju ári eða þar um bil, að það eru vanefndir sem því nemur.

Spurning mín er sú hvort það hafi ekkert komið til umfjöllunar á vettvangi nefndarinnar að það yrði að bæta það með einhverjum hætti, vegna þess að þetta frumvarp lýtur að því að það er framlag ríkisstjórnarinnar til þess að greiða fyrir kjarasamningum. Þetta er í raun og veru ígildi að minnsta kosti hlutar af þeim kjarasamningum sem ríkisstjórnin hét að kæmi inn til þess að kjarasamningar gengju fyrir sig. Ríkisstjórnin virðist ekki ætla að efna það nema að hluta. Er hægt að haga sér þannig í samskiptum við aðila vinnumarkaðarins og launafólk í landinu? Þegar kjarasamningar eru gerðir segist ríkisstjórnin ætla að koma með framlag í formi gjaldalækkunar upp á svo sem 460 millj. kr., en þegar til stykkisins kemur þá er sleifarlagið hér þannig að þetta tefst og tefst, en það er ekkert bætt upp með því að hækka þær prósentur sem lækkunin á að nema, sem maður skyldi ætla að hefði átt að vera eða fylgja með í tillögum meirihlutans. Það er ekki að sjá að meiri hlutinn geri tillögur þar að lútandi.

Svo er auðvitað ekkert annað hægt en að velta því fyrir sér hvers konar áherslur það eru sem birtast hér í því hvaða gjöld verða fyrir valinu. Það er áfengi og tóbak, nýtist kannski þeim sem neyta þeirrar vöru sérstaklega, ekki öðrum, ekki nema þá óbeint í gegnum lækkun á vísitölu sem er farin að fletjast býsna mikið út og vegur kannski ekki mikið í heildinni, (Forseti hringir.) og svo eldsneytisgjöldin. Þetta eru hlutir sem maður hlýtur að setja spurningarmerki við og spyrja (Forseti hringir.) formann Samfylkingarinnar hvort hann (Forseti hringir.) telur það boðlegt að standa að samþykkt (Forseti hringir.) frumvarpsins eins og það lítur út.