143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Það mun vera að finna á þskj. 1008. Eins og þar kemur fram gerir 2. minni hluti að sjálfsögðu ekki athugasemdir við það að ríkisstjórn reyni að greiða götu kjarasamninga og þar á meðal með því að halda aftur af gjaldskrárhækkunum. Það er vel þekkt fyrirbæri að ríkisvaldið komið með einhverjum hætti að því að greiða götu kjarasamninga, ekki síst ef verið er að reyna að ná samstöðu um grundvöll kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, hvort sem það snýr að verðlagsmarkmiðum sem menn setja sér í tengslum við slíka samninga eða að aðilum vinnumarkaðarins eða verkalýðshreyfingunni sem líta á það sem jákvætt innlegg í kjarasamninga að stjórnvöld greiði götu einhverra annarra mála.

Ég verð að segja eins og er, virðulegur forseti, að það er alveg einstaklega lágt risið á efndum ríkisstjórnarinnar. Þetta er með því allra snautlegasta sem ég held að ég hafi nokkurn tímann séð ef það á að heita svo að þarna hafi verið á ferðinni einhvers konar framlag ríkisvaldsins til að greiða götu almennra kjarasamninga í þríhliða samskiptum verkalýðshreyfingar, vinnuveitendasamtaka og ríkisvalds. Það snýr bæði að innihaldi þessa máls og málsmeðferðinni.

Reyndar voru, eins og þarf sjálfsagt ekki að rekja fyrir þingmönnum, viðtökur þessara kjarasamninga þegar þeir komu til félagsmanna verkalýðshreyfingarinnar blendnar svo vægt sé til orða tekið. Þar á meðal vegna þess að gerðar höfðu verið tilteknar kröfur til ríkisstjórnarinnar um að hún legði raunverulega eitthvað af mörkum af hálfu aðildarfélaga Alþýðusambandsins og sérstaklega var það Starfsgreinasambandið ef ég man rétt sem var með mjög eindregnar óskir og kröfur um það að ríkisstjórnin breytti áherslum sínum lítillega í skattamálum og tryggði hinum tekjulægstu einhverja hlutdeild í áformuðum skattalækkunum. Því hafnaði ríkisstjórnin nánast alveg. Gerðar voru minni háttar breytingar á þeirri undarlegu niðurstöðu ríkisstjórnarinnar að lækka eingöngu tekjuskatt í milliþrepi. Þetta hleypti auðvitað strax illu blóði í andrúmsloftið. Niðurstaðan varð sú, eins og kunnugt er, að um eða yfir helmingur félagsmanna Alþýðusambandsins felldi samningana og knúði í kjölfarið fram eitthvað skárri niðurstöðu. Þetta fór strax á flot á fyrstu vikunum eftir að ríkisstjórnin kynnti þetta útspil sitt 21. desember í fyrra.

Þá má líka nefna, þótt það sé annað mál, að þróun kjaramálanna síðan hefur auðvitað fjarlægst það enn meir að þarna hafi myndast einhver samkomulagsgrundvöllur fyrir almenna kjarasamninga í landinu þar sem samið væri um mjög lágar prósentutölur og menn treystu á að verðbólga yrði svo hverfandi lítil að eftir sem áður kæmi út úr því einhver aukning kaupmáttar. Samningar sem síðan hafa gengið eftir hafa verið á talsvert öðrum nótum. Jú, jú, það heitir gjarnan að það sé verið að lagfæra skekkjur og vinna upp slaka sem myndast hjá viðkomandi hópum, en er ekki alveg í lagi að tala um það á mannamáli að í raun og veru hafa aðrir fjölmennir hópar síðan samið um mun meiri launahækkanir, að vísu í samningum til lengri tíma?

Markmiðið náðist í sjálfu sér ekki. Nú heyrast þeir tónar frá þeim sem reyndu þó að tala fyrir upphaflegu samningunum innan Alþýðusambandsins að forsendur þeirra séu fallnar og enginn grundvöllur sé fyrir því að líta á þennan samning sem aðfararsamning að lengri samningi á næsta ári eða undir lok þessa árs.

Eftir stendur, virðulegur forseti, að hér er á ferðinni útfærsla ríkisstjórnarinnar, stjórnarmeirihlutans á því hvar sé borið niður og í hve ríkum mæli verði dregið úr tilteknum gjaldskrárhækkunum eða verðlagsuppfærslum liða sem tengdust afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2014. Það val er mjög athyglisvert. Nú kann ýmsum að þykja að ekki sé verið að hreyfa svo stóru máli að ástæða sé til að ergja sig yfir því, en það er engu að síður prinsippmál ef ákveðið er að draga úr þegar boðuðum hækkunum, gjaldskrárhækkun, verðlagshækkunum og verðlagsuppfærslum, sem niðurstöður urðu um í fjárlagafrumvarpi, þá segir það ákveðna sögu hvar borið er niður. Við þær útfærslur gerir 2. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar miklar athugasemdir.

Fyrst má nefna það sem borið hefur á góma nú þegar í þessari umræðu, að það hefur orðið alveg ótrúlegur dráttur á því að ríkisstjórnin komi þessu litla til framkvæmda sem hún þó ætlaði að leggja í púkkið. Það er alveg með endemum. Það er ekki eins og þetta sé flókið mál. Það hefði ekki átt að taka menn vikur eða mánuði að koma þessu saman, koma því í gegnum ríkisstjórn og leggja það fram á þingi, en það gerðist nú samt. Ríkisstjórnin komst ekki í að afgreiða þetta lítilræði frá sér fyrr en í lok janúar og málið var ekki lagt fram á þingi fyrr en upp úr miðjum febrúar, þar í viðbót var ekki mælt fyrir því fyrr en mánuði síðar.

Efnahags- og viðskiptanefnd hefur að sönnu haft þetta mál í um einn og hálfan mánuð. Það er ekki hægt að kalla það óeðlilegt í ljósi þess að á þeim tíma var páskaleyfi og málið fór til umsagnar og einhverjir gestir voru kallaðir á fund nefndarinnar eins og gengur. Svo mikið er víst, herra forseti, að það var ekki stjórnarandstaðan og er ekki og hefur ekki verið sem hefur tafið þetta mál. Satt best að segja hefur hún engar kröfur gert um það t.d. í efnahags- og viðskiptanefnd að þar kæmu einhverjir viðbótargestir aðrir en í raun og veru fyrst og fremst aðilar vinnumarkaðarins sem og umsagnaraðilar.

Þetta leiðir til þess að meiri hlutinn bregður á það ráð að leggja til að gildistakan verði 1. júní 2014, þegar árið er næstum því hálfnað. Ég er ekki einu sinni alveg viss um að það sé skynsamlegt. Kannski þyrfti þetta að vera akkúrat á miðju ári miðað við gjalddaga í vissum flokkum. Ég hef ekki náð að skoða það en áskil mér rétt til að gera það. Ef undir eru í einhverjum tilvikum tveggja eða þriggja mánaða gjalddagatímabil kann að vera skynsamlegt að hækkunin taki gildi akkúrat á slíkum mörkum.

Það þýðir að áætlaðar 460 millj. kr. sem ríkið hafði talað um og aðilar vinnumarkaðarins staðfestu á fundum í efnahags- og viðskiptanefnd að yrði lagðar í púkkið — reyndar nefndu þeir um 0,5 milljarða sem ættu að duga til þess að þessum verðlagsmarkmiðum yrði náð, að þessar tilteknu hækkanir færu úr 3% í 2% — eru komnar niður í tæpar 270 milljónir kr. Ef við tökum bara 7/12 af 460 milljónum mun það láta nærri, ef stærðfræðin er ekki alveg að fara með mig, 268 milljónum þó að ólíklegt sé að það endi nákvæmlega á þeirri tölu. Það er allt og sumt. Hið undarlega er að meiri hlutinn leggur bara til óbreytt efnisinntak hvað varðar prósentulækkunina; 1% er reiknað yfir þá flokka sem eru undir í frumvarpinu. Það segir náttúrlega sína sögu.

Herra forseti. Það þyrfti ekki að taka röskan mann nema svona tvo til þrjá tíma að semja þetta frumvarp. Hér eru teknir flokkarnir og fjárhæðirnar og bara farið með 1% yfir línuna. Útkoman verður sú, sem er auðvitað annað athyglisvert við þetta mál, að lækkanirnar eru í flestum tilvikum nokkrir tugir aura, samanber kílómetragjaldið eða olíugjaldið í 1. gr. sem lækkar úr 56,55 kr. í 56 kr. sléttar. Það er að vísu falleg tala, en lækkunin verður þá 55 aurar, vissulega mjög nálægt 1%.

Ég held að þetta sé mesti ágalli þessa máls, fyrir utan að velja þessa liði og gera þeim öllum jafn hátt undir höfði, auk þess hversu seint málið kemur og hve lítið það er. Mér finnst reyndar mjög skrýtið að leggja að jöfnu í þessu t.d. áfengis- og tóbaksgjald við umferðarskatta sem ég flokka ekki með sama hætti. Auðvitað eru gjöldin á umferðina miklu nær því að vera almenn útgjöld heimila í landinu en t.d. tóbaksgjald, sem færri og færri nota í miklum mæli nú til dags, sem betur fer, alla vega reyktóbakið.

Það er engin hugsun í þessu, heldur er bara farið með reiknistokkinn yfir þá flokka sem hér eru valdir út. Það leiðir til þess, herra forseti, að lækkanirnar eru svo sáralitlar í krónum talið að þær munu ekki sjást. Það mun enginn maður taka eftir þeim og það verður engin leið að fylgjast með því, t.d. í bensín- og olíuverði, hvort þetta hafi nokkur minnstu áhrif, nokkrir tugir aura. Þó að það væri rúm hálf króna, ef við legðum saman lækkunina á almenna og sérstaka bensíngjaldinu, ætli það væru ekki um 60 aurar sem hlutur ríkisins í útsöluverðinu ætti þá að lækka? 60 aurar. Hafa menn horft á verðtöflurnar hjá olíufélögunum og hvernig þær rokka oft bara með daga millibili upp um 2 og 4 kr. og niður um 5 og 6 kr. Stundum fá þingmenn SMS-skilaboð um 12 kr. afslátt þennan daginn út af einhverju, það þarf ekki einu sinni að vera handboltakeppni í gangi. Þetta er á fullri ferð sem nemur jafnvel tífaldri stærðargráðu þeirrar litlu lækkunar sem þessi aðferð skilar, að drita þessu út yfir svona marga liði sem leiðir aftur til þess að þetta verða nokkrir aurar á hverjum stað. Það sjá það auðvitað allir að það er engin leið að fylgjast með því og hafa nokkra minnstu hugmynd um hvort þetta komi fram á hinum endanum, ekki nokkur leið.

Má ég þá frábiðja mér ræðuhöldin um að það sé svo virkur samkeppnismarkaður í gangi á öllum þessum sviðum að það verði hægt að hafa eftirlit með því? Jú, vissulega, ef það nær áfengis- og tóbaksgjaldinu ætti þetta að skila sér, a.m.k. í útsölunni hjá ÁTVR. Ætli það sé ekki þar með upptalið á þeim bænum líka þegar kemur að smásölu, þjónustu á veitingahúsum o.s.frv.?

Það er líka óhjákvæmilegt að spyrja: Af hverju ber hæstv. ríkisstjórn niður þarna en lætur alveg vera að velja út og lækka einhverja aðra liði sem væru sýnilegir og mundi muna um? Ég hefði talið að úr því sem komið var, ég tala nú ekki um þegar þessi mikli dráttur var orðinn á þessu, hefði verið skást að einfalda þetta frumvarp verulega, velja út tvo, þrjá liði og lækka þá þannig að um munaði og það sæist. Það væri líklegt til að skila sér í beinlínis lækkuðu verðlagi og koma neytendum til góða. Þá hefði auðvitað verið eðlilegra að bera annars staðar niður en hér, t.d. í áfengis- og tóbaksgjaldi. Af hverju lækka ekki myndarlega komugjöld á heilsugæslustöðvar sem voru hækkuð langt umfram allar verðlagsforsendur í fjárlögunum? Það var greinilega liður í hugmyndafræði stjórnarflokkanna sem þeir voru að vísu að hluta til reknir til baka með, samanber innlagningargjaldið á sjúkrahús sem tókst að berja til baka hérna fyrir áramótin.

Af hverju nefni ég heilsugæslustöðvar? Það er m.a. vegna þess að það líður varla sú vikan að við séum ekki að fá heldur dapurlegar upplýsingar um það hversu hátt hlutfall tekjulágs fólks sé farið að neita sér um almenna heilbrigðisþjónustu. Væru það ekki rök og gott innlegg í það mál að bakka með hækkun á komugjöldum á heilsugæslustöðvar? Það held ég og helst ætti ekkert gjald að vera, tóm vitleysa frá byrjun. Ætli hafi ekki verið vitundarrökin sem frjálshyggjan notaði þá fyrir kostnaðinum? Það væri svo gott fyrir menn að vita að þetta kostaði eitthvað, að þeir ættu að borga, eins og menn séu almennt að leita sér slíkrar þjónustu að gamni sínu eða að ástæðulausu.

Við getum nefnt skráningargjöldin í opinberu háskólana, sem hækkuðu nú um ein 25%. Þau eru að mínu mati komin upp í topp og reyndar aðeins upp fyrir það. Ég tók um þetta nokkrar snerrur við hæstv. menntamálaráðherra hér fyrir áramót. Ég fékk ekki betur séð, skoðandi gögn frá Háskóla Íslands, en að skráningargjöldin væru komin upp fyrir raunkostnað sem háskólinn skilaði út úr sínu bókhaldi á árinu 2012. Nú er það þannig að skráningargjöld eiga að mæta raunkostnaði háskólanna við það sem flokkað er undir skráningu, kostnað við skráninguna, og er vandlega skilgreint í reglugerð. Háskólinn skilaði inn gögnum við rauntölur ársins 2012. Þótt maður taki verðlagshækkanir á þær held ég að skráningargjöldin eins og þau eru núna hafi farið upp fyrir verðlagshækkun miðað við raunkostnað ársins 2012, að vísu bara hjá Háskóla Íslands þar sem kostnaðurinn er lægri en hjá minni skólum. En sama er, þar með eru menn komnir á grátt svæði. Skráningargjöldin eru byrjuð að vera hreinn tekjustofn fyrir háskóla, skattur. Það er þeim ekki ætlað að vera. Hefði þá ekki verið ágætt að róa fyrir þá vík og lækka skráningargjöldin? Það var nákvæmlega eins hægt að taka útgjöldin úr ríkissjóði og bæta háskólunum upp tekjutapið.

Það hefur verið þrengt að námsmönnum. Það leynist engum að þessi nýja ríkisstjórn hefur tekið upp aðrar áherslur, ekki bara í sambandi við heilbrigðismál þar sem átti í varfærum skrefum að leggja af stað í átt til aukinnar gjaldtöku með hækkuninni á komugjöldum á heilsugæslustöðvar og legugjöldum á sjúkrahús. Það hefur líka verið þrengt að námsmönnum, m.a. í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna, eða það stendur til. Hæstv. menntamálaráðherra var að vísu rekinn til baka með það af dómstólum landsins þegar hann ætlaði nánast án nokkurs aðdraganda að breyta verulega framvindukröfum sem skilyrði þess að menn fengju námslán. Námsmenn hafa kvartað undan sínum högum. Húsnæðiskostnaður þeirra hefur hækkað mikið og menn hafa ekki fengið það bætt í framfærslugrunni lánasjóðsins. Það er mikill skortur á leiguhúsnæði, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu, sem kemur tilfinnanlega niður á námsmönnum sem hrekjast út í bæ og berjast þar um leiguhúsnæði sem er í litlu framboði. Háskólinn nær að mæta húsnæðisþörf um það bil 7% nemenda sinna í dag. Að lágmarkið er talið, ef ástandið er þokkalegt, að húsnæði í boði á vegum stúdentagarða eigi að vera fyrir a.m.k. 15% nemenda, þ.e. nemenda utan af landi og nemenda með þannig fjölskylduaðstæður og þeir þurfa á stúdentagörðum að halda. Það er ekki í dag, þannig að það hefði verið alveg tilvalið í þessu máli að snúa aðeins við blaðinu og gera eitthvað sem hefði mælst vel fyrir og hefði komið til móts við hagsmuni námsmanna, en það er ekki gert.

Það er líka umhugsunarefni að ríkisstjórnin skuli ekki bara bera niður í almenna bensíngjaldinu heldur líka í sérstaka bensíngjaldinu. Hvað þýðir það, herra forseti? Það þýðir að tekjur Vegagerðarinnar skerðast, þ.e. eyrnamerktar tekjur, markaðar tekjur vegasjóðs. Mér hefði fundist meiri sómi að því að ríkið hefði þá með framlagi sínu til kjarasamninga, sem er nú að litlu orðið, tekið það allt á sig og eingöngu lækkað almenna bensíngjaldið en látið sérstaka bensíngjaldið vera. Stærstur hluti, 2/3 tekjulækkunarinnar, bensíngjaldsmegin kemur niður á tekjum vegasjóðs. Þar er ástandið nú eins og allir þekkja. Sennilega hefur aldrei verið þrengt jafn mikið að Vegagerðinni hvað varðar möguleika hennar til almennra framkvæmda, viðhalds og reksturs vegakerfisins. Það er grenjandi fjárvöntun í vetrarþjónustu og viðhald og bara til að verja vegakerfið skemmdum, hvað þá að eitthvað sé hægt að gera að ráði í formi nýbygginga. Ríkisstjórnin ákveður engu að síður að láta stærri hluta tekjutapsins koma niður hjá vegasjóði.

Hæstv. innanríkisráðherra virtist ekki hafa hugmynd um þetta þegar ég spurði hvort þetta væri gert með hennar samþykki. Hún virtist vera alveg meðvitundarlaus um þetta mál og hefur sennilega ekkert athugað það. Þetta eru auðvitað engar stórkostlegar fjárhæðir en samt kannski 100 milljónir til eða frá sem vegasjóður verður af eða hefði a.m.k. orðið af í tekjum ef þetta hefði staðið allt árið. Þetta veikir stöðu Vegagerðarinnar sem því nemur.

Þetta er enn alvarlegra en ella ef ríkisstjórnin ætlar að taka upp það nýmæli að líta svo á að allt sem hefur verið lagt í uppbyggingu vegakerfisins af almennum skatttekjum ríkisins til viðbótar mörkuðum tekjustofnum á umliðnum árum sé núna allt í einu orðið að skuld vegasjóðs við ríkissjóð. Kenningin sem kom hér fram í haust með fjárlagafrumvarpinu leiðir til þess að Vegagerðin á að skila af mörkuðu tekjum sínum eitthvað á annan milljarð kr., eins og hún sé aflögufær um þessar mundir, til að gera upp það sem menn vilja meina í bókhaldsdeild míns ágæta gamla ráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, að sé skuld Vegagerðarinnar við ríkið. Ég hef aldrei heyrt þetta áður, alla vega ekki að gengið hafi verið út frá því að Alþingi liti alltaf svo á, þegar það hefur ákveðið að auka vegaframkvæmdir með almennum skatttekjum, að þar með myndaðist skuld Vegagerðarinnar eða vegasjóðs við ríkið. Það væri gaman ef einhver hefði aðstöðu til þess að fara í gegnum þingtíðindin og fletta umræðum hér um samgönguáætlanir, framsöguræðum formanna samgöngunefnda gegnum tíðina o.s.frv., að vita hvort þess yrði einhvers staðar fundinn staður. Ég held ekki. Ég man eftir hinu gagnstæða, þar sem menn sögðu beinlínis og hrósuðu sér af því að þeir ætluðu að auka framkvæmdir í samgöngumálum með viðbótarfé úr ríkissjóði sem bættist við hinar mörkuðu tekjur.

Það er einnig athyglisvert að ríkisstjórnin velur að lækka t.d. kolefnisgjald. Það er bara tekinn reiknistokkurinn og farið með hann á kolefnisgjaldið og það er lækkað um 1%. Er pólitík í því? Veltu menn því fyrir sér hvort þeir ættu kannski út frá umhverfissjónarmiðum að hrófla ekki við þeim gjöldum sem hafa verið innleidd í skattkerfinu, aðallega á síðasta kjörtímabili, og hafa gert skattkerfið grænna, sem tengjast markmiðum okkar í loftslagsmálum sem er almennt þróunin í öllum löndum í kringum okkur? Mengun er skattlögð og sá sem mengar borgar. Kolefnisgjaldið er liður í miklu víðtækari aðgerðum af því tagi sem loksins komst skriður á í tíð síðustu ríkisstjórnar, enda græn ríkisstjórn. Þá var kolefnisgjaldið tekið upp og lagt á allt jarðefnaeldsneyti sem er selt innan lands, líka það sem er undanþegið olíugjaldi. Það er hugsað sem ákveðinn þröskuldur eða hvati til þess að reyna að leita annarra orkugjafa og um leið að þeir sem standa fyrir losuninni borgi. Um svipað leyti var tekið upp að losun koltvíildis yrði andlag bifreiðagjalda, mjög hvetjandi kerfi til þess að kaupa inn sparneytna bíla þannig að aðflutningsgjöld af bílum eru þeim mun lægri og jafnvel enginn ef þeir eru umhverfisvænir o.s.frv.

Er ríkisstjórnin ósammála þessari stefnu? Boðar hún eitthvað nýtt með því að lækka kolefnisgjaldið? Eða var hún bara meðvitundarlaus? Var þetta bara reiknistokkur sem fór á allt saman?

Kostulegast, frú forseti, verð ég þó að segja að sé lækkunin á raforkuskatti. Ég held að hún sé mesti brandarinn í þessu frumvarpi. Hver er lækkunin þar? Hún er um 1/100 af eyri — það er verið að lækka skattstofn um 1/100 úr eyri. Ég held að ég hafi aldrei séð svo mínimal breytingu nokkurn tímann á nokkrum hlut. Raforkuskatturinn lækkar sem sagt úr 13 kr. í 12 kr. og 90 aura. Það er náttúrlega ekkert smáræðisframlag til verðstöðugleika í landinu. Það munar aldeilis um þennan hundraðasta úr eyri sem ríkisstjórnin leggur af mörkum fyrir kjarasamninga með lækkun á raforkuskatti. Hver fær þennan hundraðasta úr eyri af hverri kílóvattstund? Erlenda stóriðjan fær 80% af því. Þetta kemur svo sáralítið við almenning í landinu vegna þess að langstærsti greiðandi þessa skatts eru stórnotendur á raforku. Þetta er bara brandari. Þarna hefur kerfismennskan borið menn ofurliði. Þeir hafa lent með reiknistokkinn á raforkuskattinum og reiknistokkurinn hefur sagt: Þetta er 1/100 úr eyri. Það er haft fyrir því að tína það inn í frumvarpið og gera grein fyrir því í sérstakri grein. Svo er umsögn um þá grein — 1/100 úr eyri. Þetta er eins og hver annar brandari, frú forseti, og ekki mikið meira um það að segja.

Niðurstaða 2. minni hluta er sú að aðgerðir séu satt best að segja afar ómarkvissar, fyrir utan þann óhóflega drátt sem orðið hefur á því að þær komist til framkvæmda. Ríkið er nánast að helminga framlagið sem það lofaði. Það er að verða að eiginlega ekki neinu, komið undir öll skekkjumörk, þessir örfáu aurar á hinum og þessum liðum sem munu að sjálfsögðu týnast fullkomlega þegar frumvarpið kemur til framkvæmda á miðju sumri þegar menn verða sennilega uppteknari við annað en að velta því fyrir sér hvort lækkun upp á 10 aura hér eða 20 aura þar skili sér örugglega í bensínverðinu eða annars staðar. Auðvitað hefði verið miklu skárri kostur að velja fáa og skýra liði og koma með bitastæðar lækkanir á þeim. Þetta er svo ómarkvisst og vitlaust, frú forseti, að þrátt fyrir að almennt séð sé jákvætt að ríkið leggi sitt af mörkum í svona samhengi er engin leið að styðja það vegna þess að það er hrein sýndarmennska að standa við loforð með þessum hætti. Nú þegar hafa orðið umtalsverðar vanefndir á því litla sem heitið var og réttast að ríkisstjórnin sitji ein upp með það og beri ein ábyrgð á því.

Verðlag hefur blessunarlega þróast með mjög hagstæðum hætti á undanförnum nokkrum mánuðum. Ef ekki væri fyrir hækkanir á fasteignamarkaði væri hér nánast verðhjöðnun eða nánast engin verðbólga, sem við mættum auðvitað velta fyrir okkur hvað segði okkur. Þetta stafar meðal annars að því og ekki síst að gengið hefur styrkst það mikið á svo löngu tímabili, fram yfir áramótin og síðan haldist stöðugt, að það hefur blessunarlega skilað sér eitthvað inn í verðlag, eins og það á að gera. Þetta skýrist líka af því að mörg sveitarfélög tóku mjög framsýna afstöðu og drógu verulega til baka eða felldu alveg niður áður boðaðar gjaldskrárhækkanir. Reykjavíkurborg reið þar á vaðið og á heiður skilið fyrir það. Flest sveitarfélög landsins dröttuðust á eftir. Við sumum þeirra þurfti að vísu að ýta. Það bar aðeins á því að einstök sveitarfélög ætluðu sér að læðast í skjólinu og gera lítið, en sem betur fer held ég að vel flest þeirra ef ekki öll hafi að lokum lagt a.m.k. eitthvað af mörkum.

Frú forseti. Að lokum legg ég til að málið fari aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. úr því sem komið er og í ljósi þess hversu langt er liðið á tímann. Það er á annan mánuð síðan við fengum til okkar aðila vinnumarkaðarins. Við vorum þá fullkomlega grunlaus um það í minni hlutanum að meiri hlutinn mundi ekki bara leggja til svo mikla seinkun á gildistöku og heldur hrófla ekki við prósentunum til lækkunar. Við skuldum aðilum vinnumarkaðarins það að fá þá til fundar og fara aftur yfir málið með þeim, hvort þetta séu fullnægjandi efndir á fyrirheitunum og kannski væri hægt að ræða í leiðinni hvort ekki væri skynsamlegra að bera einhvers staðar annars staðar niður og með myndarlegri hætti fyrir þessar 270 eða 460 milljónir.