143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:00]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Við þingmaðurinn erum klárlega sammála um að ef svigrúm skapast til að lækka gjöld þarf að forgangsraða hvaða gjöld skuli lækka. Klárlega er það forgangsröðun sem landsmenn vilja að forgangsraða til heilbrigðismála, ekki skuli vera að setja þessi komugjöld á, að þau skuli lækka eða þau skuli tekin út, alla vega lækka þau um það svigrúm sem er í boði.

Mér finnst vera svolítið svindl í gangi. Lögð eru til hallalaus fjárlög. Þau grundvallast á því að það sé hækkað það sem nú á að lækka, tekin eru inn þessi gjöld sem nú á að fella að hluta. Ég vildi því spyrja þingmanninn hvort hann muni hvar þessi hallalausu fjárlög enduðu. Þau voru í 500 milljónir í plús sem er 1/1000 af því sem um ræðir. Það vita allir að slíkt næst ekkert og það þarf alltaf að úthluta meira á endanum, en menn segja það að þeir séu með hallalaus fjárlög, þau byrjuðu einhvers staðar í 500 milljónum, svo datt það niður í 300 milljónir á einhverjum tímapunkti í meðferð þingsins á málinu, ég held það hafi endað í 700 milljónum, heyrði ég einhvers staðar, og svo í 600 milljónum heyrði ég rétt áðan. Þessar 600 milljónir í plús koma til, og man þingmaðurinn að hve miklu leyti, vegna þeirra gjaldskrárhækkana sem nú er verið að lækka. Ef ekki hefði verið farið í þær gjaldskrárhækkanir hefðu fjárlögin ekki orðið hallalaus. Þær lækkanir sem nú koma til, nægja þær til að setja fjárlögin í mínus þannig að þau séu í raun ekki hallalaus?