143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:08]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka framsögumanni nefndarinnar fyrir að gera grein fyrir áliti meiri hlutans í þessu máli og sömuleiðis þeim framsögumönnum fyrir álitum minni hlutans sem mælt hefur verið fyrir. Þó hefur ekki enn verið mælt fyrir öllum álitunum, ef ég skil rétt, þó að almenn umræða um málið sé nú hafin og gefur auðvitað tilefni til talsverðrar umfjöllunar í þinginu um gjaldastefnu ríkisstjórnarinnar og auðvitað þá meinlegu ágalla sem eru á þessu máli og sumpart nánast broslegan málatilbúnað á köflum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja hvert má rekja upphaf þessa máls. Það byrjaði eftir að Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn með Framsóknarflokknum síðasta vor að afloknum alþingiskosningum þar sem flokkurinn hafði þá farið mjög mikinn í kosningabaráttunni, og raunar í fjögur ár samfleytt, um að ekki ætti að hækka gjöld á almenning og farið fram með tillögur um ekki bara að halda aftur af verðlagshækkunum á gjöldunum heldur beinlínis að lækka sum þeirra sem lögð eru á, þrátt fyrir stöðu ríkissjóðs. Sérstaklega má nefna tillögu þeirra um eldsneytisgjöldin. Ekki var liðið hálft ár frá því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfðu fengið umboð sitt og formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, til að stjórna landinu eftir þeirri stefnu og þeim fyrirheitum sem þeir höfðu talað fyrir þegar þeir lögðu til vísitöluhækkun á öllum gjöldum íslenska ríkisins, raunar rúmlega vísitöluhækkun, þ.e. 3% hækkun þrátt fyrir að verðbólgumarkmið Seðlabankans væri 2,5%. Ég held að almennt megi segja um þessa tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, að fyrsta tillaga hans í gjaldamálum ríkisins geri að engu allan málflutning hans sjálfs og þingmanna flokksins síðastliðin mörg ár í þinginu um gjöld ríkisins.

Þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma í ræðustól og segjast vilja lækka gjöld ríkissjóðs, segjast vera andvígir hækkunum á gjöldum ríkissjóðs, þýðir það bara eitt. Það þýðir ekki að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi sannfæringu fyrir því sem þeir segja, það þýðir bara að á því augnabliki sem þetta er sagt er Sjálfstæðisflokkurinn í stjórnarandstöðu. Hvort sem er fyrir þetta fjögurra ára tímabil eða eftir þetta fjögurra ára tímabil hækkar Sjálfstæðisflokkurinn alltaf eftir verðlagi öll gjöld og jafnvel ívið betur. Þannig hefur ekkert staðið á Sjálfstæðisflokknum að hækka öll gjöld ríkisins eftir alþingiskosningarnar síðustu, eftir að hann komst í stjórnarmeirihluta, og það stóð ekkert á Sjálfstæðisflokknum síðustu mánuðina sem við í Samfylkingunni vorum með flokknum í ríkisstjórn að hækka gjöld, ekki bara í samræmi við verðlag heldur langt umfram verðlag vegna þeirrar erfiðu stöðu sem ríkissjóður var þá í. Má í því efni vísa bæði á bensíngjaldið og áfengis- og tóbaksgjald. Því má núna öllum vera ljóst sem fylgjast með stjórnmálaumræðum á Alþingi að það er einfaldlega ekkert að marka þegar Sjálfstæðisflokkurinn talar gegn verðlagshækkunum á gjöldum ríkissjóðs eða fyrir því að lækka tiltekin gjöld ríkissjóðs, að þingmenn flokksins segi það í ræðustólnum þýðir bara að á þeirri stundu eru þeir í stjórnarandstöðu og um leið og þeir komast í stjórnarmeirihluta munu þeir flytja tillögu um að hækka öll gjöld, a.m.k. um sem nemur verðlagi.

Hér er ekki annað að gerast en að verið er að flytja fremur ámátlegt leikrit til að reyna að breiða yfir þessa augljósu staðreynd sem öllum sem fylgjast með má vera fullkomlega ljós. Það voru meiri hlutar og kjörnir fulltrúar í landinu víðs vegar sem treystu sér til að standa á bremsunni varðandi gjaldahækkanir til almennings, sem höfðu pólitískt þrek og þor til að taka ákvarðanir um það, bæði vegna erfiðrar fjárhagsstöðu margra heimila í landinu og líka vegna mikilvægis þess að halda aftur af verðbólgunni með öllum þeim neikvæðu áhrifum sem hún hefur, ekki síst meðan við höfum enn þá verðtrygginguna í gildi og ekkert hefur verið gert í því að losa fólk úr þeirri snöru. Samt voru stjórnmálamenn vítt og breitt um landið, kannski fyrst í borgarstjórn Reykjavíkur, sem tilkynntu að tekin hefði verið pólitísk ákvörðun um að falla alveg frá gjaldskrárhækkunum, að af ákvörðunum sem voru ósköp hefðbundnar í höfuðborginni um að hækka gjaldskrár í samræmi við verðlag frá ári til árs yrði ekki þetta árið. Það var til þess að stuðla að friði á vinnumarkaði, til að ná mætti kjarasamningum, til að taka tillit til erfiðrar fjárhagsstöðu margra heimila, ekki síst barnafjölskyldna sem gjaldskrár sveitarfélaga varðar meira en aðrar fjölskyldur, og sömuleiðis sem frumkvæði til að halda aftur af neikvæðum horfum í verðbólgumálum.

Þennan bolta tóku aðrir kjörnir fulltrúar á Íslandi til sín. Sem betur fer gerðist það að í fjölmörgum sveitarfélögum tóku menn þessa erfiðu ákvörðun sem hún auðvitað er. Fjárhagur sveitarfélaganna er þröngur alveg eins og fjárhagur ríkissjóðs. Mörg sveitarfélög eru skuldsett og það er ekki auðvelt í þeirri stöðu að ákveða að hækka gjöldin ekki í samræmi við verðbólgu heldur láta þau rýrna að raungildi með því að halda sömu krónutölu og var í fyrra. Þessa ákvörðun tóku menn samt í hverju sveitarfélaginu á fætur öðru. Hins vegar skoraðist Sjálfstæðisflokkurinn á Alþingi Íslendinga og fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, formaður hans, undan þátttöku í þessu. Þeir tóku ekki það skref sem sveitarstjórnarmenn tóku vítt og breitt um landið, lögðu ekki hönd á plóg við það að tryggja verðstöðugleika, greiða fyrir friði á vinnumarkaði og hlífa heimilunum í landinu við gjaldskrárhækkunum. Nei, þeir hækkuðu gjaldskrárnar engu að síður um 3%, það meira að segja fram yfir áætlaða verðbólguþróun á yfirstandandi ári. 3% skyldu það vera og hvað sem leið öllu talinu síðustu fjögur árin um að menn ættu ekki að hækka þessi gjöld í samræmi við verðlag gerðu þeir það samt. Og jafnvel þó að aðrir stjórnmálamenn við hliðina á þeim tækju pólitískar ákvarðanir um hið gagnstæða hafði Sjálfstæðisflokkurinn ekki kjark til að standa á gjaldabremsunni heldur var fyrstur til að leggja til gjaldahækkanir í þessu efni.

Þegar verkalýðshreyfingin hafði síðan sótt fast að stjórnarmeirihlutanum, og hér í þinginu hafði verið sótt einarðlega að stjórnarmeirihlutanum, um að breyta þessum áherslum og þegar ljóst var að eitthvað yrði ríkisstjórnin að gera til að liðka fyrir samningum var ákveðið að lækka hækkunina. Manni er stundum ekki alveg ljóst um hvað stjórnarmeirihlutinn er að tala, hvort hann er að tala um að hækka eða lækka, hakka eða lakka, því að þetta mál er orðið slíkur sjónleikur allt saman þegar fyrst er hækkað um 3 prósentustig, svo á sumt að lækka um 1 prósentustig og svo er því að lækka um 1 prósentustig frestað þangað til langt er liðið á árið og þá er samt prósentunni ekki breytt heldur hún höfð óbreytt. Þannig verður í raun niðurstaðan af öllu þessu leikriti sú að sú óverulega lækkun sem kemur á hluta gjaldanna seint á árinu gerir sennilega ekki annað en það að færa prósentuhækkunina um áramót, 3%, niður í það sem verðbólgan verður á yfirstandandi ári, sem er 2 komma eitthvað prósent. Eftir sem áður hefur ríkisstjórnin hækkað gjöldin til samræmis við verðlagsþróun með þeim neikvæðu áhrifum á lán heimilanna sem við þekkjum, hækkun á skuldum heimilanna sem er langt umfram tekjuávinninginn úr þessu.

Auðvitað væri hægt að hafa skilning á þessu ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði talað af ábyrgð um ríkisfjármál og gert grein fyrir því að það væri nauðsynlegt að láta gjöld fylgja verðlagi vegna stöðu ríkissjóðs, að vegna hins mikla hallarekstrar væri óhjákvæmilegt að láta gjöldin fylgja verðlagi og mæta þeim miklu skuldum sem á ríkissjóði hvíla og að þangað til hefðum við unnið okkur út úr þessum efnahagsörðugleikum yrði að haga þessum málum svona. Hagaði Sjálfstæðisflokkurinn málflutningi sínum þannig? Nei, ó, nei. Allt frá hruni eða öllu heldur allt frá því að Sjálfstæðisflokkurinn hætti í ríkisstjórn eftir hrun hefur hann talað gegn hækkunum á gjöld ríkisins.

Ríkisstjórn Geirs Haardes lafði að vísu nokkra mánuði eftir hrun. Þá hafði Sjálfstæðisflokkurinn forustu í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og þá voru gjöld ríkisins hækkuð meira en þau hafa verið hækkuð í annan tíma — undir forustu Sjálfstæðisflokksins, ekki bara um verðlagsþróunina heldur langt umfram það. Það var unnin upp verðlagsþróun margra undangenginna ára með þeim ævintýralegu gjaldskrárhækkunum sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði þar forustu um og við tókum þátt með honum í vegna hinnar erfiðu stöðu sem ríkissjóður var í. En allt afhjúpar þetta nú að Sjálfstæðisflokkurinn hækkar gjöldin þegar hann er í meiri hluta en talar gegn því þegar hann er í minni hluta. Enginn skyldi láta þetta 1 prósentustigs leikrit villa sér sýn í því.

Hins vegar væri ástæða til að binda vonir við að meiri hlutinn í þinginu, þingmennirnir sem stundum hafa viljað ganga lengra en forusta flokks þeirra eða ríkisstjórnin, drægi ekki úr þeirri ívilnun sem ríkisstjórnin er þó tilbúin að veita almenningi í þessum gjaldalækkunarmálum. Þess vegna verður maður í rauninni stórundrandi þegar maður sér málið koma frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd til 2. umr. Það var gert ráð fyrir því að gjöldin lækkuðu hinn 1. mars og út þetta ár, í tíu mánuði, um 1 prósentustig. Víst var það rýrt í roðinu og frekar lélegt miðað við það sem sveitarfélögin voru að gera á sama tímapunktinum, en það var þó sannarlega upphæð upp undir 500 milljónir. Svo kemur málið til 2. umr. og þá hefur nefndin ákveðið að almenningur eigi ekki að njóta þessarar 1 prósentustigs lækkunar í mars og almenningur á ekki að njóta hennar í apríl og almenningur á ekki að njóta hennar í maí. Hún á ekki að taka gildi fyrr en 1. júní. Þá ætlar meiri hlutinn ekki að hækka prósentuna sem því nemur þannig að sama krónutala verði gefin eftir í gjöldum á þessu ári eins og heitið var í desember. Á ekki að vera neitt að marka þau fyrirheit sem gefin eru? Þegar gefnar eru út yfirlýsingar um að gjöld eigi að lækka á ákveðnu tímabili um ákveðnar fjárhæðir og tímabilið er stytt, hlýtur að þurfa að hækka hlutfallstöluna.

Mér fannst hv. þm. Pétur H. Blöndal alls ekki gera fullnægjandi grein fyrir því hvers vegna þingnefndin hefur sérstaklega forustu um að hafa þrjá mánuði af fólki í þessum gjaldalækkunum sem þó eru veittar, sem ég ítreka að eru ósköp nánasarlegar, 1 prósentustigs lækkun á 3 prósentustiga hækkun. Það var þó eitthvað. Mér finnst mikilvægt að formaður nefndarinnar komi þá að minnsta kosti aftur í ræðu og geri grein fyrir því hvers vegna þetta er gert og af hverju þessu er ekki skilað til fólks.

Síðan eru fjölmargir aðrir þættir í þessu máli sem full ástæða er til að við ræðum í þinginu nú á vordögum þegar líður að þinglokum. Það þarf að ræða þessa stefnu í meginatriðum, þ.e. skatta- og gjaldapólitík ríkisins, hvaða forgangsröðun við viljum sjá í henni. Við skulum sannarlega vona að það mikla starf sem hefur verið unnið á undanförnum árum í því að rétta við fjárhag ríkissjóðs og við það að efla hér efnahagsstarfsemina og skapa þann hagvöxt sem nauðsynlegur er til þess að við komumst úr þeirri erfiðu stöðu sem við vorum í skili árangri og að við verðum á næstu missirum í aðstöðu til þess að draga jafnvel úr gjaldtöku á almenning. Þá þurfum við að hafa í því efni alveg skýra forgangsröðun og menn verða að ræða hana pólitískt og umbúðalaust, ekki með svona sjónleikjum eins og því að lækka hækkanir.

Sú þróun sem við höfum fylgst með í þessu efni er að mínu viti áhyggjuefni. Ýmislegt bendir til þess að í ákveðnum gjöldum sem ríkið innheimtir séum við komin út á ystu brún, að sums staðar sé þegar orðið of langt gengið og orðin brýn nauðsyn á að minnka. Þar er ég sérstaklega að hugsa um gjaldtökuna sem orðin er í heilbrigðiskerfinu hjá okkur. Hlutdeild sjúklinga hefur því miður vaxið jafnt og þétt á umliðnum árum og er orðin umtalsvert hærri en hlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskostnaði í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Við það bætist að gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu er mjög mismunandi eftir sviðum og þess vegna getur hún verið enn þá meira íþyngjandi í einstökum tilfellum en meðaltalstölurnar gefa til kynna. Þar eru því miður mörg dæmi um kostnað sem ég held að við getum öll verið sammála um að er algjörlega óhóflegt að leggja á einstaklinga í ríki þar sem ég hélt að við værum öll sammála um það í grunninn að allir borgarar ættu að geta leitað eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og fengið hana án tillits til efnahags, að þjónustugjöld ættu fyrst og fremst að gegna hlutverki við að auka kostnaðarvitund en ekki að koma í veg fyrir að fólk gæti sótt sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Við erum komin býsna nærri þeim mörkum og sums staðar yfir þau.

Hvað sjáum við þá í áherslum nýrrar ríkisstjórnar? Ný ríkisstjórn trúir því, eins og ég trúi því, að hér sé að skapast eftir þrotlaust starf síðustu fjögurra ára undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, og Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, það ástand að hér megi byrja að draga úr álögum á fólk og fyrirtæki í landinu. Fólkið og fyrirtækin í landinu hafa starfað kappsamlega frá hruni, aukið efnahagsstarfsemina, bætt afkomu okkar allra og náð að breyta stöðu ríkissjóðs þannig að það er hægt að byrja að slaka á í sköttum og gjöldum.

Hvert er þá farið? Það er auðvitað það sem maður horfir á því að það er hin hreina pólitík í málinu.

Fyrsta verkið er að létta af auðlegðarskatti. Það er fyrsta yfirlýsingin um þá sem þurfi að létta undir með, þau 5 þús. heimili í landinu sem eru ríkust. Ríkustu 5 þús. heimilin í landinu, þau sem borga auðlegðarskattinn, eru númer eitt, tvö, þrjú, fjögur og fimm á forgangslista nýrrar ríkisstjórnar. (Gripið fram í.) Vissulega var auðlegðarskatturinn tímabundinn og í þeim fjárhæðum sem hann hefur verið innheimtur er óhjákvæmilegt að hann sé tímabundinn, en hann var tímabundinn til jafnlengdar gjaldeyrishöftum. Nú liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur framlengt gjaldeyrishöftin en hún hefur ekki framlengt auðlegðarskattinn. Þar með hefur hún fallið frá 10 milljarða tekjum árlega, sem hún er búin að rétta 5 þús. ríkustu heimilunum í landinu. Vegna þess að hún hefur tekið þessa ákvörðun og aðra svipaða um að lækka veiðigjöldin um svipaðar fjárhæðir þarf hún að hækka gjöld á allan almenning, hækka bensíngjöldin, sjúklingagjöldin, skólagjöldin og öll hin gjöldin á hverju (Forseti hringir.) einasta ári næstu fjögur árin.

Og það er röng forgangsröðun, virðulegur forseti.