143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:33]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Já, ég bendi á þá forgangsröðun sem nefnd er í kosningabæklingi Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar. Þar er talað um rétta forgangsröðun og þar undir eru fjórir liðir og fyrsti liðurinn er forgangsröðun í þágu grunnþjónustu. Það er ekki fyrr en þar á eftir að nefnd er lækkun skulda ríkissjóðs, lægri vaxtakostnaður og í kjölfarið jafnvægi í ríkisfjármálum sem forsenda stöðugleika. Fyrst er talað um grunnþjónustuna, svo er talað um hallalaus fjárlög og að halda vel utan um ríkisfjármálin. Allt tal sem hefur verið um að fórna megi öllu fyrir hallalaus fjárlög, þar virðist ekki vera sá tónn sem sleginn var í kosningabaráttunni, að það skuli forgangsraða í þágu grunnþjónustu, það eru orðin.

Ég spyr því þingmanninn aftur hvort honum finnist þetta ekki stangast á við þessa stefnu og hvað hann hefur heyrt frá hinum almenna sjálfstæðismanni, ef hann talar við hinn almenna kjósanda Sjálfstæðisflokksins. Ég geri það og ég heyri að menn eru ekki ánægðir með þessa forgangsröðun. Þá spyr ég líka þingmanninn, hann þekkir betur söguna, hvort þetta sé almennt raunin, eins og hann hefur verið að segja, og kannski að hann geti nefnt okkur einhver dæmi um það.