143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar við áttum þessar viðræður, ég og hv. þingmaður, sem þá var formaður efnahags- og viðskiptanefndar og ég var í stjórnarandstöðu, lagði ég einmitt áherslu á að krónutölugjöld beri að hækka í takt við verðlag, annars sitji þau eftir. Og ég hef líka bent á að allir aðrir skattar ríkisins séu verðtryggðir. Virðisaukaskatturinn fer að sjálfsögðu eftir verðlagi, þegar verðlag hækkar þá hækkar hann sjálfkrafa, þannig að allir aðrir skattar eru verðtryggðir, og hví skyldi þessi skattur ekki þá líka fylgja verðlagi?

Þegar krónan rýrnar í gildi og verður verðbólga þá er það ekki þannig að verðbætur séu gjöld hjá þeim sem greiðir. Það sem gerist er að krónan verður minna virði. Það ætla ég að biðja alla þá að hafa í huga sem halda að verðbætur séu gjöld hjá þeim sem greiðir og tekjur hjá þeim sem fær.

Varðandi það frumvarp sem ég stóð að á sínum tíma þá ætluðum við að lækka gjöldin umtalsvert þannig að það kæmi fram í verðlagi. Ég hef ekki þá trú að þetta frumvarp hér hafi mikil áhrif á verðlag, því miður. Ég hef þá trú að afgangur af ríkissjóði hafi miklu meira með verðlag að segja og hvernig verðlag hefur þróast en það að tína til einhverja krónutöluskatta. Ég held að raunverulegur afgangur á ríkissjóði — og þá á ég við að menn séu að „feika“ eitthvað eins og gert var á síðasta kjörtímabili í stórum stíl þar sem ríkisreikningurinn stemmdi aldrei við fjárlög eða fjáraukalög — hafi miklu meiri áhrif á það að slá á verðbólgu en nokkuð annað.