143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:36]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Verðbólga er ekki bara mæld í verðlagi á áfengi, tóbaki og eldsneyti. Það eru miklu fleiri þættir sem hafa áhrif á verðbólgumælingu. Þótt hækkunin verði ekki 3% heldur 2%, nota bene, hlýtur að vera miðað við heilt ár en ekki hálft ár eða sjö mánuði eins og hér er gert ráð fyrir, þannig að bara sú breyta gerir það að verkum að menn eru væntanlega ekki að ná þessari lækkun sem þó er talað um og hv. þingmaður rakti. Miklu fleiri þættir hafa áhrif á verðbólguna og vísitöluna og hvernig hún er mæld.

Í þessari umræðu hefur verið vikið að ýmsum þáttum sem hækkuðu stórlega um áramótin, eins og komugjöld á heilsugæslu og innritunargjöld í háskóla. Það eru fleiri slíkir þættir sem hafa áhrif á verðbólguna. Ég hef ekki séð neitt í gögnum þessa máls eða í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um hvaða áhrif þetta hefur á verðbólguna. Það er bara sagt að þetta sé liður í því að menn haldi sig innan við þessi mörk en miðað við það að tímasetningin stenst ekki og að fleiri þættir hafa áhrif hefði verið gagnlegt og fróðlegt að sjá slíka útreikninga til fulls, en þeir liggja ekki fyrir í þessu máli.