143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er augljóst af því sem hér hefur komið fram að verið er að snuða almenning um 200 millj. kr. eða þar um bil af þeim fyrirheitum sem gefin voru í tengslum við gerð kjarasamninga í desember síðastliðnum. En hefur hv. þingmaður einhverjar skýringar á því af hverju hv. þm. Pétur H. Blöndal gengur fram með þeim hætti að flytja breytingartillögu fyrir hönd meiri hlutans í nefndinni sem minnkar enn meira þann rýra hlut sem almenningur var þó að fá í þessu fyrirheiti ríkisstjórnarinnar með því að gildistökunni er frestað án þess að prósentan sé hækkuð? Það gerir að verkum að þetta eru ekki orðnar nema eitthvað liðlega 200 millj. kr., held ég, sem málið snýst um og kannski alveg á mörkunum að það taki því fyrir ríkisstjórn Íslands að flytja sérstakt þingmál um ekki hærri fjárhæð en það í ráðstöfun í ríkisfjármálum. Enn síður að það taki því að vera að dreifa því á marga liði eins og hér er verið að gera.

Það er kannski ástæða til að spyrja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson: Ef þessari fjárhæð væri bara varið í að lækka eina tegund gjalda eða eina tegund skatta, er eitthvað sem honum þætti eðlilegra að nota þetta til heldur en annað? Væri það ekki skynsamlegri ráðstöfun? Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru þetta kannski innan við 200 kr. fyrir hvert heimili á mánuði á þessu ári. Veigameira er málið ekki þegar öllu er á botninn hvolft.