143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um gjaldskrárlækkanir. Þetta eru aðallega gjaldskrárlækkanir á bensíni, áfengi og tóbaki. Það kemur líka til lækkana á nokkrum öðrum liðum og má nefna umhverfis- og auðlindaskatta og stimpilgjöld, það verða einhverjar breytingar á stimpilgjöldum sem lækka gjöld.

Það sem er mjög mikilvægt í þessari umræðu er að ef við viljum að þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins vinni að og fylgi stefnu sem flokkurinn hefur samþykkt skulum við halda til haga að þessar lækkanir eru ekki að frumkvæði stjórnarinnar eða Sjálfstæðisflokksins. Þær koma til, eins og kemur fram í frumvarpinu, af því að rétt fyrir jólin þurfti að aðstoða við kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands, þannig að frumkvæðið er ekki Sjálfstæðisflokksins eða stjórnarinnar.

Málið var svo ekki sett í forgang. Því var lofað rétt fyrir jól, þetta átti að gerast í janúar eða sem allra fyrst en það kemur ekki fram fyrr en í febrúar, mars og það kemst fyrst í 2. umr. núna rétt fyrir þinglok. Þetta mál hefur því ekki verið sett forgang. Þá komum við að þriðja liðnum.

Þetta er ekki lækkun frá því að síðasta ríkisstjórn tók við. Þetta er ekki gjaldskrárlækkun frá því að síðasta ríkisstjórn tók við, af því að gjaldskrárnar voru hækkaðar um hátt í 2 milljarða og nú á aðeins að draga þær hækkanir örlítið til baka, um 1/4 af því. Þetta eru því ekki lækkanir og það er ekki staðið við stefnu flokksins. Það er það sem er svo mikilvægt í þessu máli, að menn séu ekki verðlaunaðir fyrir þessar gjaldskrárlækkanir. Þetta er smáleiðrétting og þá segja menn kannski að verið sé að fara í rétta átt en það er ekki búið að leiðrétta þær hækkanir sem voru gerðar sem stangast á við stefnu flokksins. Og hvað er ég að meina með því? Í stefnuskrá flokksins fyrir kosningar er talað um að lækka eigi skatta og auka ráðstöfunartekjur. Þar er talað um lægra bensínverð með lægri eldsneytisgjöldum og þá kem ég aftur að því að eldsneytisgjöldin voru hækkuð. Það er aðeins verið að lækka þau örlítið til baka í dag.

Nú langar mig að færa mig yfir í annan vinkil á þessu. Þessar hækkanir og að það eigi að lækka skatta, skattarnir hafa verið hækkaðir, gjöldin hafa verið hækkuð og þau lækka örlítið til baka, það er eitt. Hitt er hvernig á að forgangsraða, hvernig eigi að forgangsraða skattfé. Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar er talað mjög skýrt um ábyrg ríkisfjármál, rétta forgangsröðun og þar er fyrsta atriðið forgangsröðun í þágu grunnþjónustu. Þarna voru gjöld hækkuð um hátt í 2 milljarða og nú á að lækka til baka um 460 milljónir en það á aðeins að lækka í hálft ár. Þetta á því ekki að lækka nema um 230 milljónir. Ef við tökum saman það sem flokkurinn sagði í kosningum, að forgangsraða ætti í þágu grunnþjónustu, og það sem var sagt þar á undan í stjórnmálaályktun á landsfundinum, sama ár fyrir kosningar, þá segir í stjórnmálaályktuninni, með leyfi forseta:

„Í þágu heimilanna mun Sjálfstæðisflokkurinn standa vörð um velferðina. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að tryggja öryggi og velferð landsmanna með því að leggja skattfé fyrst í þau verkefni sem eru brýn og áríðandi. Örugg heilbrigðisþjónusta, góð menntun og trygg löggæsla skal vera í forgrunni.“

Menn sáu að nauðsynlegt var að fara í þessar gjaldskrárhækkanir þvert á það sem þeir sögðu: Allt í lagi, við getum þá byrjað að hækka gjöldin núna en á kjörtímabilinu lækkum við af því að við þurfum hallalaus fjárlög. Það er réttlætingin. En það réttlætir samt ekki að því skattfé sem er tekið er ekki forgangsraðað á réttan stað, því er ekki forgangsraðað á þann stað sem kemur fram í stjórnmálaályktun landsfundar. Örugg heilbrigðisþjónusta er ekki tryggð. Það er ekki tryggt að skattfé fari fyrst í slík verkefni, örugga heilbrigðisþjónustu og góða menntun, af því að verið er að hækka gjöldin þar, það er verið að leggja komugjöld á sjúklinga sem þýðir að færri sækja sér heilbrigðisþjónustu. Öruggur aðgangur fólks að heilbrigðisþjónustu minnkar.

Það er líka verið að hækka skráningargjöld í háskólana sem minnkar aðgengi fólks að góðri menntun. Það eru einhverjir sem ákveða að fara ekki, sem hvorki sækja sér heilbrigðisþjónustu né menntun. Það eru áhrifin þegar gjöld eru hækkuð. Það er því ekki gert sem segir í stjórnmálaályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins 2013, það er ekki staðinn vörður um velferðina í þágu heimila. Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að tryggja öryggi og velferð landsmanna með því að setja skattfé fyrst í þau verkefni sem eru brýn og áríðandi, örugg heilbrigðisþjónusta og góð menntun o.s.frv., en skattfénu er ekki varið eins flokkurinn sagðist ætla að verja því.

Byggt er á þessari ályktun flokksmanna Sjálfstæðisflokksins í stefnuskránni þar sem talað er um ábyrg ríkisfjármál og rétta forgangsröðun og forgangsröðun í þágu grunnþjónustu nefnd fyrst, eins og ég sagði áðan. Svo kemur lækkun skulda ríkissjóðs, lægri vaxtakostnaður og að jafnvægi í ríkisfjármálum sé forsenda stöðugleika, en fyrst skal forgangsraða í þágu grunnþjónustu. Það er það fyrsta sem lagt er til, svo koma hallalaus fjárlög. Menn geta sagt: Það þurfti að fara í að auka gjöld og hækka skatta, þó að flokkurinn segi að ekki eigi að gera slíkt, til að ná meginmarkmiðinu, hallalausum fjárlögum. Þá hefur flokkurinn samt líka sagt að önnur markmið vegi þyngra, þ.e. að standa vörð um grunnþjónustu, örugga heilbrigðisþjónustu og góða menntun. Það eru orðin sem eru notuð.

Þetta er tónninn og andinn í Sjálfstæðisflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki frjálshyggjuflokkur. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur sem vill mikið athafna- og einstaklingsfrelsi en vill standa vörð um grunnþjónustuna. Meira að segja hjá þeim sjálfstæðismönnum sem eru hvað lengst til hægri, eins og SUS, í fjárlagatillögum þeirra fyrir 2014 eru einkunnarorðin samt: Stöndum vörð um grunnstarfsemina. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Hér á eftir fara ítarlegar sparnaðartillögur ungra sjálfstæðismanna. Eins og áður koma þær ekki niður á velferðar-, heilbrigðis- eða menntakerfinu.“

Svo heldur áfram aðeins neðar:

„Í eftirfarandi töflu má sjá samantekt á sparnaðartillögum SUS flokkað eftir ráðuneytum. Lagt er til að útgjöld ríkisins verði lækkuð um 85,4 milljarða króna. Eins og sjá má í töflunni eru tillögurnar misviðamiklar. Þannig er lagt til að nær öll útgjöld atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins falli niður (92%) og stór hluti af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu (73%). Hins vegar er lítið hreyft við velferðarráðuneytinu (1%).

Það er alveg ljóst hvernig á að forgangsraða skattfé, sama hvort það eru ungir sjálfstæðismenn, sem eru líklega lengst til hægri af þeim aðildarfélögum sem eru innan Sjálfstæðisflokksins, eða hópurinn sem ályktar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Það er líka alveg ljóst að kjósendur í landinu vilja sér í lagi forgangsraða til heilbrigðismála og eru þar af leiðandi sammála ályktun Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum þar sem segir, með leyfi forseta:

„… að leggja skattfé fyrst í þau verkefni sem eru brýn og áríðandi. Örugg heilbrigðisþjónusta, góð menntun …“

Það er svo mikilvægt ef við viljum sjá þá forgangsröðun sem flokksmenn Sjálfstæðisflokksins vilja klárlega og flestir landsmenn að verðlauna ekki stjórnarflokkana fyrir þessar tillögur, að verðlauna stjórnarflokkana ekki fyrir að lækka lítillega þau gjöld sem þeir höfðu áður sett á. Þeir settu gjöldin á og töldu það nauðsynlegt til að taka inn skattfé til að forgangsraða rétt og það er komið í ríkiskassann. Það verður að horfa til þess hvernig á að forgangsraða því skattfé.

Mér sýnist þeir heldur ekki vera að efna loforðið sem þeir gáfu Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands rétt fyrir jól, eins og segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 21. desember, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin lýsir því yfir að hún muni við samþykkt kjarasamninga endurskoða til lækkunar vissar breytingar á gjöldum sem samþykktar hafa verið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga 2014 til að stuðla að því að verðlagsáhrif, sem af þeim leiði, verði minni en ella og innan verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands.“ Sem eru 2,5%.

Þeir segja að þeir munu endurskoða þau áhrif sem gjaldskrár ríkisstjórnarinnar munu valda á verðlagi þannig að hækkun verði ekki meiri en 2,5%. Svo kemur fram í frumvarpinu að lækkun ofangreindra gjalda úr 3% í 2% eða 1%, eins og lagt er til í frumvarpinu, tekur mið af þeirri yfirlýsingu. En heildaráhrif gjaldskrárhækkananna voru næstum því 2 milljarðar kr. Það sem á að draga til baka er á ársgrundvelli 460 millj. kr. sem er ekki nema 1/4. Ef það ætti að draga þetta niður, 3% niður í 2,5%, þeir lækka um 1%, en það er á ársgrundvelli, og það er aðeins fyrir þessa tilteknu liði. Heildarpakkinn er 2 milljarðar. Lækkunin á þessum liðum er næstum því 0,5 milljarðar en það er á ársgrundvelli og fyrst ríkisstjórnin hefur ekki sett málið í það mikinn forgang leiðir þetta 1% á miðju árinu aðeins til 0,5% lækkunar. Þá er þetta ekki lengur lækkun um 1/4 heldur um 1/8 af heildargjaldhækkunum í upphafi. Það þýðir að þessi 3% hækkun nær engan veginn niður í 2,5%. Þá hefur ríkisstjórnin svikið loforðið sem hún gaf Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands sem var grundvöllur fyrir kjarasamningum, grundvöllur þess að samningar næðust.

Ríkisstjórnin á því ekki frumkvæðið að lækkunum, hún hefur ekki sett málið í forgang heldur trassað það. Þegar það er trassað er ekki staðið við loforðin um að hækka þessa prósentutölu, úr 1% lækkun í 2% lækkun. Þetta er ekki raunveruleg lækkun þegar allt kemur til alls. Þótt gjaldskrárhækkanirnar væru 2 milljarðar á núna aðeins að lækka um 0,5 milljarða á ársgrundvelli og á þessu ári, af því að frumvarpið kemur svona seint fram og er afgreitt seint, er það ekki nema 1/4 úr milljarði. Það er ekki farið eftir stefnu flokksins um forgangsröðun og ekki farið eftir stefnu flokksins um að lækka eldsneytisgjald, af því að þetta er ekki raunveruleg lækkun, og það er ekki staðið við loforðið sem var grundvöllur kjarasamninga ASÍ og Samtaka atvinnulífsins.

Þetta er ekki góð frammistaða. Ef Sjálfstæðisflokkurinn, kjósendur Sjálfstæðisflokksins, skráðir félagar, ungir sjálfstæðismenn vilja að flokkurinn virði það sem flokkurinn hefur samþykkt og að ríkisstjórnin fylgi því eftir er mjög mikilvægt að ríkisstjórnin sé ekki verðlaunuð fyrir þetta einstaka mál og sagt: Nú er verið að lækka gjöld, nú hefur ríkisstjórnin lækkað gjöld. Hún hefur í rauninni ekki gert það frá því að hún kom til valda.

Hvað skal gera? Eitt sem ríkisstjórnin gæti gert til að standa við loforðið sem hún gaf Samtökum atvinnulífsins og ASÍ er að hækka 1% lækkunina sem er lögð til í frumvarpinu í 2%, af því að þetta kemur fram á miðju ári. Það mundi ná heildaráhrifunum undir 2,5% verðbólgumarkmiði, þá væri staðið við það loforð. Það væri eitt sem væri hægt að gera. Í stærra samhenginu er samt sem áður ekki verið að forgangsraða skattfé eins og flokkurinn hefur sagt að eigi að forgangsraða, í grunnþjónustuna, í örugga heilbrigðisþjónustu og góða menntun. Allt í lagi, þá fær flokkurinn það ekki. Á hann að sætta sig við það? Þá er hægt að spyrja um aðra gjaldstofna. Er ekki hægt að ná þeim gjaldstofnum inn einhvers staðar annars staðar? Í þessari umræðu hefur verið komið inn á það að ef auðlegðarskatturinn, og veit ég að sjálfstæðismenn eru alls ekki hrifnir af honum, hefði verið framlengdur í eitt ár eða lækkaður úr þeim 10 milljörðum sem hann skilaði í 2 milljarða hefði ekki þurft að fara í allar hinar gjaldskrárhækkanirnar. Þetta skilyrði er 2 milljarðar. Þetta er spurning um forgang. Hvar á þá að ná inn skattfé? Það á greinilega að ná inn skattfé, en hvar á að ná í það? Á að taka það af 500 heimilum í auðlegðarskatt eða í hinum víðtæku gjaldskrárhækkunum sem ríkisstjórnin stóð fyrir, sem var eitt af hennar fyrstu verkum í fyrstu fjárlögunum, þ.e. skattahlið þeirra, þetta kom samhliða. Það er spurningin.

Ef ég horfi á stefnuna mundi ég líklega vera sáttur við að staðið yrði við lækkunina, að gjaldskrárhækkanirnar mundu ekki valda verðbólgu, með því að hækka lækkunina sem kemur núna úr 1% í 2%. Svo væri hægt að fara í það að ná inn skattfé annars staðar til að geta forgangsraðað í það sem eflaust flestir landsmenn vilja. Það má skera það niður annars staðar, menn geta skoðað tillögur SUS og aðrar tillögur í því ljósi, en það er augljóslega hægt að skera niður annars staðar þannig að það megi forgangsraða skattfé og verja því í örugga heilbrigðisþjónustu og góða menntun.