143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[19:16]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við 1. umr. um þetta mál dró ég fram plagg þar sem Samtök atvinnulífsins bentu á hvaða áhrif mismunandi gjaldskrárbreytingar gætu haft á verðbólgu í landinu, á verðlag. Þar var bent á að 15 þús. kr. hækkunin á innritunargjöldum fyrir nemendur í opinberum háskólum; ef hún ein og sér yrði tekin út mundi verðbólgan lækka meira en allar þær aðgerðir sem hér er verið að tala um, og það var þó áður en það var lækkað úr 460 millj. kr. niður í 322 millj. kr. Hvað finnst hv. þingmanni um það?

Eins er athyglisvert að skoða að á sama tíma og við vorum að tala um að gjaldskrárlækkanir ættu að eiga sér stað til að koma til móts við launafólk þá er hækkun á útvarpsgjaldi, sem rennur ekki til útvarpsins, það eru komugjöldin í heilsugæsluna, það eru hækkanir hjá sérgreinalæknum, felldir eru út styrkir til að leigja eða kaupa ákveðin hjálpartæki. Nú verða menn að borga sjálfir að fullu fleiri komur til sjúkraþjálfara o.fl. í þeim dúr sem varðar budduna beint.

Ég ek um 25 þús. km á ári, sem er býsna mikið, þá erum við að tala um 2.500 lítra af bensíni, þá erum við að tala um lækkun á kostnaði á ári, með þessari aðgerð, upp á um það bil 2.500 kr. Ef maður reiknar mánuðina þá erum við að tala um 1 bensínlítra eða 250 kr. á mánuði. Á þetta að bjarga kjarasamningum og verðbólgu á Íslandi? Þetta er ótrúlega rýrt miðað við það sem maður hefði ætlast til, miðað við yfirlýsingar eins og hv. þingmaður las hér upp.