143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[19:20]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og tek undir það sem sagt var áðan að það er ágætt að fara yfir kosningaloforð annað slagið, hvaða flokka sem er. Í þetta sinn eru það auðvitað ríkisstjórnarflokkarnir sem um ræðir, það er Sjálfstæðisflokkurinn sem þetta leggur fram hér og er því við hæfi að fara yfir það. Það er afar áhugavert að sjá að hvert loforðið á fætur öðru er í rauninni svikið.

Mig langar aðeins að velta hér upp nokkrum spurningum með hv. þingmanni af því að eins og sagt er þá á þetta frumvarp að draga úr verðbólgu. Krónugjöld og nefskattar eru mikilvægur hluti af tekjuáætlun fjárlaganna og talið er að af því að þeir hækki nú ekki sjálfvirkt þá þurfi að hækka þá. Eins og þingmaðurinn kom réttilega inn á var byrjað að hækka um 3% og síðan var lækkað um 1%. Hér hefur verið rætt töluvert í dag um hversu lítil lækkunin verður þegar svo langt er liðið á árið.

Þetta átti sem sé að takast með því að taka arð hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og ráðstafa þeim fjármunum í lækkunina. Nú þegar fyrir liggur að lækkunin er mun minni en ráðgert var má spyrja sig hvort ríkisstjórnin ætli sér að taka allan þann mismun út sem verður til við upphaflegar áætlanir og hvað hún ætlar að gera við mismuninn. Nú hefur komið fram að það er birgðastaða hjá t.d. ríkinu varðandi áfengi og tóbak. Telur hv. þingmaður að það komi fram þannig að þjóðin verði vör við það? Er möguleiki á að fylgja þessu eftir (Forseti hringir.) með einhverjum hætti svo við vitum að lækkunin skili sér?