143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[19:25]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held nefnilega að það gildi ekkert ósvipað um áfengi og um olíu og bensín. Við þekkjum það öll að það er alveg sérstakt ef eldsneytisverð lækkar mjög hratt ef það verður einhver lækkun úti í heimi en það hækkar hins vegar mjög skyndilega ef það verður hækkun úti í heimi. Sama held ég að eigi við um áfengiskaup heildsala og annarra sem selja t.d. veitingastöðum og öðrum slíkum, þeir eru búnir að kaupa inn eitthvert tiltekið magn og lækkunin kemur ekki strax fram þar. Ég hef ekki trú á því að það gerist, ég held að það komi ekki fram. Ég held að það verði afar erfitt að fylgja eftir svona litlum fjárhæðum varðandi bensín, eins og fram kom hér áðan, ef þetta eru 2.500 kr. á 25 þúsund kílómetra, þá skiptir það bara svo litlu máli að fólk eltist kannski ekki við það.

Mig langar til að ræða hér annan vinkil á þessu máli. Fram kemur hjá Alþýðusambandinu að ríkisvaldið ætli ekki að standa við umsamið framlag til starfsendurhæfingarsjóða sem byggja á samkomulagi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Síðan gerir Alþýðusambandið líka athugasemdir við að dregið er úr framlögum til framhaldsskóla sem bitna mun illa á verk- og tækninámi. Af því að ég kem úr þessum geira, menntaskólanum, þá tek ég undir þær áhyggjur því að verknámið hefur þurft að sitja á hakanum, þangað hefði maður frekar viljað ráðstafa fjármunum.

Mig langar í lokin að spyrja hv. þingmann, af því að við höfum mikið rætt gjöld fyrir sjúklinga, hvort hann telji rétt varðandi það markmið að draga úr verðbólgu að lækka neyslustýringarskattana í stað þess að lækka t.d. gjöld á sjúklinga, inntökugjöld í háskóla o.s.frv.