143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[20:27]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur, þetta virkar þannig að menn hafi bara fundið einföldustu leiðina til að segja: Við getum haft þarna áhrif með 0,08% hvað varðar verðbólguna og þetta er fljótvirkasta leiðin. Þegar menn skoða þetta nákvæmlega, og hv. þingmaður nefndi tekjuskattslækkunina, að þar var lægsti hópurinn skilinn eftir og „konsekvent“ eru menn í rauninni að skilja eftir lægsta hópinn hvað varðar aðgerðir til lækkunar á kostnaði og öðru slíku.

Nú erum við nýbúin að fá skýrslu þar sem verið er að skoða fátæktina og þar sem verið er að meta hlutfallslega fátækt. Við erum enn þá með 10% þjóðarinnar, fólk sem er metið sem fátækt og þá er það enn undarlegra að skoða þessa hluti í því samhengi. Það eru ekki stórnotendur á bíl eða stórnotendur á áfengi og tóbaki sem geta þar með fengið einhvern afslátt í gegnum gjaldskrárlækkanir, þetta eru aðilar sem ekki hafa efni á þessu. (Forseti hringir.) Á sama tíma er verið að hækka komugjöldin eins og í heilsugæslu og öðru slíku. (Forseti hringir.) Mig langar aðeins að heyra skoðun hv. þingmanns á þessu.